145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:08]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Miðað við það sem ég hef séð í fréttum hafa alltaf verið uppi öðru hvoru hugmyndir um léttlestakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Ég veit ekki nákvæmlega hvað verið er að tala um þar, en gott ef það var ekki í fréttum nú nýlega. Ég hef kannski ekki fylgst með samgöngumálum í höfuðborginni af mikilli athygli, en ég verð vör við þá umferðarhnúta sem hv. þingmaður nefndi. Ég held að verið sé að skoða léttlestakerfi í höfuðborginni og svo er alltaf umræða um lest milli Keflavíkur og Reykjavíkur. Það væri fyrsta forsenda þess að hægt væri að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur ef mjög greiðar samgöngur væru til Reykjavíkur. Það er áhugaverð hugmynd að flytja þessa milljón ferðamenn, eða hvað það nú er, frá Keflavík til Reykjavíkur með lest, eins og þekkist alls staðar annars staðar.

Ég væri líka mjög til í að það væri lest á milli Akureyrar og Reykjavíkur þannig að ég gæti bara setið róleg í lestinni. Það væri ótrúlegur lúxus. Eitt það versta við að búa á Akureyri og það sem veldur mér mestum ótta er ef ég veit af börnunum mínum að keyra á þjóðveginum. Það finnst mér mjög óþægileg tilfinning vegna þess að vegirnir eru ekki öruggir og það þarf ekki mikið til út af að bera til þess að slys verði, t.d. vegna hálku og annars. Ég yrði því manna fegnust ef ég gæti sest upp í lest og sett alla mína fjölskyldu í lest til að komast á milli staða. En væntanlega þarf að vera ákveðinn fjöldi á hvorum enda. Að sjálfsögðu eigum við að vera opin fyrir öllu og kanna þessa möguleika. Sérstaklega þurfum við að vega það og meta hvernig við ætlum að haga flugsamgöngum inn í framtíðina ef við ætlum ekki að hafa lestarkerfi. Eigum við kannski að fara um hugsa um niðurgreiðslur á flugi til þess að gera þær samgöngur aðgengilegri fyrir þá sem búa fjærst höfuðborginni, eins og við höfum aðeins rætt hér í þingsal?