145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[18:23]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er sannarlega rétt sem hv. þingmaður bendir á, umræðan um innanlandsflugið er í mikilli deiglu. Þessir hefðbundnu pólar sem hafa ekkert endilega verið mikið á dýptina eru að mínu mati á undanhaldi. Við heyrum raddir sem eiga afkomu sína undir öflugri ferðaþjónustu úti um land sem eru farnar að benda á hið augljósa, að á meðan hliðið inn í landið er bara á einum stað erum við í raun að búa til alveg ofboðslega mikinn þrýsting á suðvesturhornið. Þegar fólk stoppar hér í tiltölulega stuttan tíma leggur það ekki land undir fót til að fara norður og austur eða vestur. Sú opnun sem mundi skapast af því að vera með innanlandsflugið í beinu framhaldi af millilandafluginu væri til þess að efla byggðirnar úti um land og væri kannski ein af sterkustu byggðaaðgerðum sem við gætum farið í um leið og við værum þá að losa dýrmætt byggingarland í Vatnsmýrinni og þar með stuðla að þéttingu byggðar á höfuðborgarsvæðinu sem er líka gríðarlega mikilvæg aðgerð til að efla og styrkja okkar höfuðborg, ég tala nú ekki um til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna þess að þá værum við hér með þéttari og öflugri byggð þar sem fólk gæti lifað sínu daglega lífi með miklu fleiri möguleika á því að iðka aðra ferðamáta en þennan hefðbundna með einkabílnum. Fólk gæti farið gangandi, hjólandi og með strætó sinna ferða. Það sem ég sé í því líka er að þar með værum við með sterkari höfuðborg í samkeppninni við höfuðborgir Norðurlandanna sem er sú staða sem unga fólkið okkar er að horfa á.