145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:00]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir ágætisræðu þar sem hann kom víða við enda af nægu að taka þegar við ræðum samgönguáætlun, eða það sem þetta heitir núna réttara sagt, verkefnaáætlun í samgöngumálum. Ég deili skoðunum hans og í sjálfu sér þingsins í mjög mörgu sem sett er fram í þessari verkefnaáætlun. Það virðist vera talsverður samhljómur á milli meiri og minni hluta, en auðvitað eru forgangsmálin mismunandi. Við erum öll sammála um að vegakerfið þarfnast miklu meiri fjármuna bara til þess að halda í horfinu, þá erum við ekki einu sinni að tala um að búa okkur undir þá aukningu sem við sjáum fram á í umferðinni. Fyrir utan þann ferðamannafjölda sem við sjáum fram á og gerum ráð fyrir í öllum okkar áætlunum þá gerum við ráð fyrir að íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgi um 70.000 manns næstu árin. Það er allnokkuð að íbúum á suðvesturhorni landsins eða á höfuðborgarsvæðinu fjölgi um 70.000 manns.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson gladdist yfir því að til stæði að bæta eða tvöfalda þjóðveginn um Kjalarnes. Það sem mig langar að spyrja hv. þingmann og nú tala ég til hans sem þingmanns í Suðvesturkjördæmi: Hefur þingmaðurinn ekki áhyggjur af því að Sundabrautin er alfarið tekin út úr verkefnaáætlun meiri hlutans?