145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:02]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni Önnu Margréti Guðjónsdóttur fyrir spurningu hennar og andsvar.

Við deilum þeirri skoðun að það þurfi aukna fjármuni í vegakerfið. Hv. þingmaður fór mjög vel yfir bæði veldisvöxtinn í fjölda ferðamanna, ég kom jafnframt inn á það í ræðu minni, og íbúaaukningu á þessu svæði. Ég tók hér fram úr áliti meiri hlutans um tvöföldun þjóðvegar um Kjalarnes. Ég skal viðurkenna það að ég verð að svara spurningu hv. þingmanns játandi. Já, ég deili algjörlega áhyggjum hennar vegna Sundabrautarinnar. Þetta er ekkert síður öryggisatriði en samgöngubót á þessu svæði.