145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:03]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það gleður mig að heyra að við hv. þm. Willum Þór Þórsson deilum áhyggjum í þessum efnum enda er þetta tvímælalaust ótrúlega mikið hagsmunamál ekki bara fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins, heldur landið allt. Hvað sem líður allri umræðu um flugvöll og það er umræða sem ég ætla að taka í ræðu minni á eftir eða í kvöld eða morgun eða hvenær sem hún verður, þá er það engu að síður svo að þær 2 milljónir ferðamanna sem koma til landsins núna og allir þeir sem búa hér í þessu landi munu í síauknum mæli ferðast með bílum. Það er bara veruleiki sem við verðum að horfast í augu við.

Mér finnst það beinlínis móðgun við íbúa í Mosfellsbæ og sveitarfélög á norðanverðu höfuðborgarsvæðinu að eiga að taka á móti allri þessari gríðarlegu umferð sem fer um þetta svæði. Ég held að þetta sé afar mikið öryggismál. Þetta er auðvitað líka umhverfismál. Það kemur fram í verkefnaáætlun samgönguáætlunar að Sundabraut sé tekin út af áætluninni vegna þess að leita eigi leiða til að fara í einkaframkvæmd með hana. Nú vil ég nefna annað fyrirbæri sem við náum kannski ekki að ræða núna, við hv. þm. Willum Þór Þórsson, en það er borgarlínan. Þar er verið að skoða möguleikann á því og leitað fyrirmynda erlendis um að tengja saman ríki, sveitarfélög og einkaaðila í fjármögnun. Auðvitað er það sú umræða sem oft hefur átt sér stað í sambandi við Sundabraut.

Það er hins vegar mikið áhyggjuefni að brautin skuli tekin út og ég vona að hv. þm. Willum Þór Þórsson leggist á sveifina með mér og öðrum sem bera þetta mál fyrir brjósti að Sundabraut verði aftur sett (Forseti hringir.) inn á áætlun því að það er algjörlega forkastanlegt að taka hana út af áætlun sem á að gilda fram til ársins 2018. Það má ekki gerast. (Forseti hringir.) Þetta er öryggismál og þetta er umhverfismál og þetta er mikið hagsmunamál fyrir alla sem búa á þessu landi.