145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það gladdi mig alveg ósegjanlega þegar ég sá hæstv. innanríkisráðherra koma hér í salinn um stundarkorn fyrir um einum og hálfum tíma síðan, en því miður er hæstv. ráðherra farinn aftur (Gripið fram í.) og sömuleiðis … Nú, guð láti gott á vita ef hún er hér nálæg og eins var það með formann samgöngunefndar sem hefur sést svona af og til. Ég er nefnilega með eina tiltekna beina spurningu til annars þeirra eða beggja. Þannig er að ég sat í sérstakri nefnd sem Akureyrarbær hafði frumkvæði að að koma á fót varðandi vanda Grímseyjar, þar hefur steðjað nokkur vandi að byggðinni. Sett var saman nefnd með fulltrúum bæjarins, Byggðastofnunar, þingmannahópsins, bankans og fleiri aðila sem að því komu og skilaði af sér ágætistillögum sem tók síðan ríkisstjórnina um það bil ár að skoða áður en hún gerði þær að sínum í aðalatriðum óbreyttar, svo sem eins og að festa tiltekinn byggðafestukvóta við Grímsey sem blessunarlega hefur gengið eftir og hefur verulega hjálpað til í þeim efnum að útgerðir hafa náð að semja um skuldamál sín o.s.frv. En það var eitt lítilræði sem innanríkisráðherra eða stjórnvöldum var ætlað að gera í þessum pakka sem er eins og ég segi að verða eins og hálfs árs gamall frá því að nefndin skilaði af sér vorið 2015 og það var að bæta samgöngur til eyjarinnar. Í raun var þar hvort tveggja til skoðunar, flugsamgöngur og ferjusiglingar.

Staðan er sú að Grímseyingar búa í raun og veru við hörðustu kostina í þessu af öllum eyjabyggðunum, þ.e. bæði lélegustu samgöngurnar eða minnsta tíðni og það er dýrast fyrir íbúa Grímseyjar. Þetta tæplega 100 manna samfélag norður við heimskautsbaug má sæta því að þurfa að borga býsna há fargjöld í ferju sem það verður að sjálfsögðu að reiða sig á sem gengur aðeins tvisvar til þrisvar í viku og/eða mjög dýr flugfargjöld þótt vissulega sé það flug ríkisstyrkt. Það er engu að síður ansi mikill viðbótarkostnaður sem fylgir því að sækja sér þjónustu, læknisþjónustu og margt fleira, sem svona lítið samfélag verður að gera þar sem eingöngu lágmarksþjónustu er að fá á staðnum.

Því var beint til stjórnvalda, og ég veit ekki betur en að ríkisstjórnin hafi samþykkt þá tillögu nefndarinnar og gert hana að sinni, að bæta áætlun Sæfara, auka tíðnina í fjórar að lágmarki, helst fimm ferðir á viku, og ganga þannig frá að síðasta ferð í land á föstudögum væri ekki fyrr en eftir klukkan fjögur þannig að bátar gætu almennt komið afla sínum ferskum á markað fyrir helgi en þyrftu ekki að geyma hann fram yfir helgi með tilheyrandi verðfalli.

Ég skil ekki að það skuli taka heila ríkisstjórn að verða hátt í tvö ár að koma svona hlutum í framkvæmd frá því að nefndin skilaði tillögum sínum í maí 2015 og þangað til ríkisstjórnin kom þessu loksins frá sér seint á árinu. Nú erum við komin þetta langt inn á árið 2016 og það bólar ekkert á aðgerðum í þessum efnum. Ekki neitt. Það er að vísu sagt að nú eigi að fara að bjóða áætlun Sæfara út og þá er spurningin: Er þá meiningin að í útboðslýsingunni verði þessi aukna tíðni og eru fjármunir ætlaðir til þess í samgönguáætlun? Og verður þetta að veruleika núna í síðasta lagi um áramótin eða svo? Ég held að ekki sé ástæða til að hanga lengur yfir þessu máli, ekki stærra en það er.

Í fyrri ræðu minni fór ég auðvitað yfir það hversu sorglegt það er hvað tíminn hefur verið illa nýttur undanfarin þrjú ár til þess að fikra sig að a.m.k. af stað í áttina að því að vinna upp þann slaka sem hefur myndast í viðhaldi og endurbyggingu vegakerfisins. Ég held að við hljótum öll að geta verið sammála um að það var kannski fátt annað að gera en rifa eitthvað seglin í þeim efnum á allra erfiðustu árunum eftir hrunið og ekki beint auðvelt að réttlæta viðbótahallarekstur á ríkissjóði á meðan hann var enn undir núllinu með fjárfestingum af þessu tagi. Þó ætluðum við nú að láta okkur hafa það og gerðum það á árinu 2012 í þeirri fjárfestingaráætlun sem þá var lögð upp og fjármögnuð sérstaklega með viðbótartekjuöflun úr veiðigjöldum og arði af bönkum. Þá var lagt af stað í innspýtingu í framkvæmdum í vegamálum, í viðhald og tengivegi með því að hleypa nokkrum stórum framkvæmdum eins og Norðfjarðargöngum af stað og settir peningar í Herjólf, framkvæmdir á Vestfjörðum og fleira.

Það hvarflaði aldrei að mér að með batnandi ríkisbúskap síðan ár frá ári, ríkissjóði í jöfnuði sem við skiluðum í hendur núverandi ríkisstjórnar á árinu 2013 og síðan batnandi afkomu ár frá ári, mundu menn bara halda sjó í þrjú ár. En það er það sem var gert og varla það einu sinni. Því árið 2014 er eitt allra aumasta ár í 10 ár þegar við tökum það sem fer til samgöngumála sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Fyrsta árið sem ríkisstjórnin bar ein og í heild sinni ábyrgð á fjárveitingum til samgöngumála þá fór þetta hlutfall niður, enda munum við umræðurnar við afgreiðslu fjárlaga í nóvember/desember 2013 þegar á þetta var bent.

Þetta er sérstaklega sorglegt vegna þess hve þörfin er æpandi og allir eru í raun og veru sammála um það. Neyðarkall berst úr öllum áttum. Vegagerðin hefur ekkert farið dult með það, enda á hún ekki að gera það. Það er hennar faglega mat að við séum komin í stórkostlegan háska með þetta. Það er beinlínis að verða sérstakt tjón vegna þess að vegirnir eru að brotna niður og burðarþolið að hverfa úr þeim. Það er vel þekkt að þegar viðhaldið fer niður fyrir visst mark, slitlagið er orðið veikt, þá fer að verða brot í vegunum, þá fer að verða viðbótartjón sem slík vanræksla veldur og kostar mikið síðar meir að laga. Vegirnir fara að verða öldóttir o.s.frv., þannig að vegir sem hefðu með betra viðhaldi geta enst kannski þokkalega í 10, 20 ár þeir verða nánast ónýtir og það kallar á stórkostlega og dýra endurbyggingu þeirra miklu fyrr en ella væri. Þessi þróun er hraðari nú vegna þess hversu miklir þungaflutningar eru á vegunum. Allt þetta þekkjum við. Þegar svo við bætist að umferðin er að taka flugið eins og við mátti búast með auknum hagvexti og betri hag manna innan lands og stórauknum ferðamannafjölda sem ferðast orðið mikið um vegina á eigin bílum, þá er þetta á engan hátt í lagi. Við höfum tapað dýrmætum tíma. Þetta eru þrjú glötuð ár í boði þessarar ríkisstjórnar. Auðvitað er það betra en ekkert að menn segi núna korter í tólf þegar andinn er að fjara úr nösum ríkisstjórnarinnar að rétt sé að bæta aðeins í með breytingartillögum, en það er ansi síðbúið, m.a. vegna þess líka að það var sérstaklega hagstætt að framkvæma á árunum 2013–2015 og jafnvel inn á þetta ár, en nú er vinnumarkaðurinn orðinn þandari og kostnaðaráætlanir standast ekki alltaf þegar til útboða kemur, því að menn bjóða hærra. Allt þetta og margt fleira mætti nefna.

Virðulegur forseti. Þetta bætist við alveg hörmulega frammistöðu ríkisstjórnarinnar almennt í málefnum landsbyggðarinnar. Hún er alveg hörmuleg. Það er ósköp einfaldlega þannig að þessi ríkisstjórn af einhverri óskaplegri meinbægni í garð alls þess sem gert hafði verið kjörtímabilið á undan, hún réð ekki við sig, framsóknarmenn og sjálfstæðismenn voru búnir að æsa sig svo rosalega í stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili, sannfæra sjálfa sig svo rosalega um að það hlyti allt að vera svo vitlaust sem ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms var að gera að það væri náttúrlega sjálfgefið að slá það allt af þegar þeir væru komnir til valda, snillingarnir eftir vöfflubaksturinn vorið 2013. Þeir stútuðu sóknaráætlun. Þeir hentu fjárfestingaráætlunni og gerðu marga fleiri mjög óskynsamlega hluti. Sóknaráætlanirnar voru vel valdaðar og það var þverpólitískur stuðningur við þær meðal sveitarstjórnarmanna í landinu og almenn ánægja orðin með það verklag að setja aukna peninga í þann farveg og að heimamenn forgangsröðuðu sjálfir og völdu verkefnin. En auðvitað er það ekki þess virði að standa í þeim viðamikla prósess sem það er að safna mönnum saman í heilum landshlutum og láta þá liggja yfir því að forgangsraða verkefnum ef engir peningar koma svo í það. Það er það sem ríkisstjórnin ákvað, að skera það niður við trog. Af hverju? Af því að það væri ekki ánægja með þetta á svæðunum? Jú, það var það. Af því að verkefnin væru ekki nóg? Jú, þau eru það. Af því að það væri ekki tækifæri til að nýta peningana? Jú, það er það. Nei, það var af því fyrri ríkisstjórn hafði gert þetta.

Fjárfestingaráætlunin var skorin niður strax að hluta til á fyrsta heila árinu sem hún átti að vera í framkvæmd 2013, t.d. hlutur eins og Kirkjubæjarstofa sem átti að fara af stað á því ári var hent út. Og ekkert kom í staðinn annað en tómarúm í þrjú ár, rétt að halda sjó í þessum efnum. Við þekkjum t.d. klúðrið í sambandi við fjárfestingar í innviðum ferðaþjónustunnar.

Þannig að því miður er það ekki svo. Það væri strax betra ef það væri bara í vegamálunum, samgöngumálunum, sem ríkisstjórnin hefði staðið sig illa, (Forseti hringir.) en það er því miður ekki þannig. Hún hefur almennt staðið sig mjög hörmulega í málefnum landsbyggðarinnar og í raun og veru í atvinnu- og byggðamálum í heild sinni.