145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:21]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki hvað skal segja. Það eru ýmsar viðmiðanir notaðar í þessum efnum, t.d. eins og varðandi bundið slitlag. Það var almennt talað um að æskilegt væri að geta endurnýjað það, keyrt yfir það nýju lagi á svona sex til átta ára fresti, þessu almenna slitlagi, olíuslitlagi sem við þekkjum úti á vegunum, öðru en malbiki. Nú hafa menn gripið til þess á undanförnum árum að teygja þetta alveg upp í níu til ellefu ár. Þá eru menn auðvitað farnir að taka ansi mikla sénsa gagnvart því að þetta verði hreinlega ónýtt og þá kemur það sem ég var að segja, að undirlagið undir veginum geti farið að skemmast meira en ella væri og það kemur svo harkalega á bakið á mönnum síðar með bakreikningum.

Sama á við í sjálfu sér um malarvegina, viðhaldið á þeim mörgum hverjum er orðið svo hörmulegt, það hefur ekki verið unnið og keyrt út unnu efni, fínasta laginu ofan á malarvegina, sums staðar svo áratugum skiptir. Menn hafa ekki séð slíkt í tíu, fimmtán ár sums staðar. Þá er það efni nánast allt horfið úr veginum. Það er ekkert til að hefla upp á vorin og breiða aftur yfir. Grjótið fer að ganga upp úr veginum. Og hvað hafa menn gert? Menn hafa notað gula málningu til að mála stórgrýti sem er að koma upp úr veginum þannig að ökumenn geti sneitt hjá því. Þetta hefur verið gert á árunum bæði í Ísafjarðardjúpi og t.d. á mínum heimaslóðum á Brekknaheiði, bara farið með fötu með gulri málningu og grjótið málað. Svona er þetta orðið. Ég keyrði allan Bárðardalinn á sunnudaginn var. Það er alveg skelfilegt að sjá þá vegi sem þar er boðið upp á.

Ef Vegagerðin hefði 10, 11 milljarða á ári úr að spila í viðhaldinu þá opnast líka ýmsir möguleikar fyrir hana eins og hún hefur stundum gert, að safna kannski saman einhverju viðhaldsfé og fara í varanlegar aðgerðir á einhverjum bútum. Hún hefur oft farið í raun og veru í hálfgerðar nýbyggingar með viðhaldsfé meðan sæmilega nóg var af því til að þurfa ekki alltaf að vera að glíma við sömu vondu kaflana ár eftir ár.

Þetta svelti (Forseti hringir.) veldur svo miklu tjóni og það takmarkar svo möguleika Vegagerðarinnar til að (Forseti hringir.) spila úr málum með einhverjum sveigjanlegum hætti að það í sjálfu sér eitt og sér er vandamál.