145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:23]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nefnilega þetta sem mér finnst málið snúast um, þ.e. ef þú vanrækir viðhaldið þá ertu að búa til miklu meiri kostnað síðar. Maður skyldi ætla að við hlytum að vera sammála um það þvert á flokka að reyna a.m.k. að vera með nægt fé í viðhald þó ekki væri nema til að halda í horfinu. Síðan er það einfaldlega þannig að það er skylda okkar að fara í að uppfæra þá vegarkafla sem kannski helst þyrfti vegna þessa aukna álags sem orðið er á vegum vegna komu ferðamanna. Því er það von mín að þeir stjórnarþingmenn sem á þetta hlýða séu tilbúnir til þess að fara með okkur í það að samþykkja tillögu okkar um 1,5 milljarða til viðbótar, við eigum þá til, við getum gert þetta, til að tryggja það að við séum alla vega að viðhalda fjárfestingunum sem við höfum þegar ráðist í og getum farið að stíga fyrstu skrefin í að uppfæra þá vegarkafla sem á þarf að halda, þannig að ég nýti nú tækifærið og hvetji menn til að skoða það af alvöru að horfa til þeirra hluta breytingartillagna okkar. Ég held að það sé mjög áríðandi fyrir okkur að gera þetta núna og láta ekki fleiri ár líða þar sem við erum að undirfjármagna bara viðhaldið, það er óskynsamlegt til lengri tíma.

Þá langar mig að nefna eitt örstutt, þó að tíminn fljúgi frá mér, við hv. þingmann. Það sem hefur angrað mig pínulítið, hafandi verið í samgöngunefnd á þessu kjörtímabili í fyrsta skipti sem þingmaður, er hvað þetta virðast allt vera svolítið tilviljanakenndar uppákomur, ef við tökum t.d. Reykjanesbrautina. Þessi breikkun sem við sjáum núna að þarf að ráðast í frá Fitjum og upp að flugstöð, af hverju var t.d. ekki búið að benda okkur (Forseti hringir.) nefndarmönnum á að þetta væri vegarkafli sem sérstaklega (Forseti hringir.) mikið álag væri á og væri á einhvers konar áhættulista hjá (Forseti hringir.) yfirvöldum? Við eigum fleiri svona vegarkafla. Mér finnst við ekki nógu skipulögð og ekki nógu dugleg að flokka eftir álagi, byggðaþróun, atvinnuþróun, uppbyggingu á vegakerfinu.