145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:26]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það hafi fengið aukið vægi að undanförnu að horfa til bæði umferðaröryggisins, hættulegustu kaflana í vegakerfinu, og svo auðvitað þess að leggja af stað með svona öflugri uppbyggingu og í fullum framtíðarstaðli út frá höfuðborgarsvæðinu í allar áttir. Auðvitað er ánægjulegt að sjá glitta í veginn austur fyrir Selfoss og svo þarf að klára tenginguna við Suðurnes og síðan leggja af stað héðan upp í Borgarfjörð o.s.frv. En að mínu mati þarf að leggja drög strax að t.d. leiðinni milli Reykjavíkur og Akureyrar. Það þarf að fara að huga að því hvenær og hvernig þar verður komið á aðskildum akstursstefnum, því þar verða líka ljót slys.

Almennt er það auðvitað þannig að ef við vanrækjum endurnýjun og viðhald á innviðunum þá kemur það okkur í koll. Það er auðvitað ekkert annað en skuld við framtíðina. Verið er að búa til skuld inn í framtíðina með þessu. Þess vegna er það ekki skynsamlegt eiginlega í neinu tilliti og sérstaklega ef það veldur beinu tjóni. Það er náttúrlega ekki þannig.

Það sem mér er óskiljanlegast af þessu öllu, og gaman kannski ef hæstv. innanríkisráðherra fengist til að tjá sig, við mundum fara út og kaupa blóm ef ráðherra kæmi hingað í ræðustólinn einhvern tímann. (Gripið fram í: … er að hlusta …) Gott er. Af hverju í ósköpunum voru ekki markaðir tekjustofnar til vegamála færðir upp til verðlags, svo ég tali nú ekki um þegar eldsneytisverð fór að hríðfalla á heimsmarkaði þannig að enginn hefði tekið eftir því? Útsöluverð á bensíni og olíu hefði bara lækkað aðeins minna, örfáum krónum minna en það hefur gert um þessa fleiri, fleiri tugi, ef menn hefðu þá sett inn hækkanir í áföngum á mörkuðum tekjum. Upplýst er að þá hefðum við 7–8 milljörðum kr. meira úr að spila í dag á ársgrundvelli. Þannig að uppsafnað er tapið fyrir vegamálin sennilega 14, 16 milljarðar kr. Hvernig (Forseti hringir.) í ósköpunum stendur á því að þessi afglöp, þessi vanræksla, átti sér stað í tíð þessarar (Forseti hringir.) ríkisstjórnar, sem gerir engin mistök að eigin sögn?