145. löggjafarþing — 164. fundur,  5. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[19:41]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er rétt að það voru innbyrðisdeilur landeigenda sem kannski töfðu framkvæmdir þarna um of. En nú er töluvert síðan samkomulag náðist og þess vegna hefðu framkvæmdir getað átt sér stað, ef ríkisstjórnin hefði komið þessu frá sér fyrr. Ég er sammála því að eignarrétturinn getur oft verið mjög sterkur og hef rætt það úr þessum ræðustóli að mér þyki óeðlilegt að einhver eigi land frá fjalli til fjöru og hefði nú talið að svona 200 metra upp ættum við öll en ekki tilteknir aðilar sem geta hamlað manni för.

Varðandi Breiðdalsheiðina og mokstur og viðhald á henni þá höfum við fjallað töluvert um snjómoksturinn og vetrarviðhaldið. Við ræddum það töluvert mikið, þingmenn Norðausturkjördæmis, vegna þess að það var ægilegt ástand í hittiðfyrra á þeim slóðum. Sumir komust ekki heim til sín. Ég horfi bara á hæstv. forseta vegna þess að ástandið var það slæmt. Það var mjög vondur vetur, það var kannski meira þess vegna, en það var líka verið að skerða moksturinn vegna þess að ekki voru til peningar. Það var gríðarlega mikið sem vantaði upp á vetrarþjónustuna og Vegagerðin var búin að kalla eftir því mjög lengi. Það þýðir ekki að horfa fram hjá því að kröfurnar eru að aukast. Sveitarfélög eru að sameinast, eru að verða eitt atvinnusvæði, heilbrigðissvæði o.s.frv., og fólk gerir kröfur um meiri mokstur og meiri opnun en áður.

Ég tek undir það að þetta þýðir skerta samkeppnisstöðu eins og með Breiðdalsheiðina og Árneshreppinn, ég nefni það sem dæmi. Þar eru íbúar nánast innilokaðir yfir veturinn vegna þess að þeir fá ekki mokstur. Allt skerðir það samkeppnisstöðu fólks sem vill byggja upp heilsársatvinnurekstur, það er alveg ljóst. Það er verið að segja þér að þú getir ekki sinnt honum nema á tilteknum stöðum á landinu ef þessi þjónusta er ekki til staðar.