145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson, sem tók hér fyrstur til máls, var frekar bjartsýnn á að nú væri að hilla undir að við færum að ljúka þessu þingi. Mig langar að vera bjartsýn eins og hv. þingmaður og ég vona svo sannarlega að niðurstaða sé að fást í það hvernig við klárum þetta þing. Nú er senn að verða liðin heil starfsvika hér á Alþingi þar sem við höfum starfað án nokkurrar starfsáætlunar. Það gengur auðvitað ekki endalaust að við störfum þannig.

Það kom mér verulega á óvart, verð ég að segja, þegar ég sá dagskrána fyrir daginn í dag, að það væru störf þingsins sem ætti að ræða hér í upphafi þingfundar. Ég hafði satt að segja verið að vonast eftir því að hér yrði óundirbúinn fyrirspurnatími þar sem þingmenn gætu átt orðastað og spurt hæstv. ráðherra spurninga. Það er vitaskuld mikilvægt í aðdraganda kosninga að hafa aðgang að hæstv. ráðherrum og geta beint til þeirra spurningum.

Mig fýsti til að mynda að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra um allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem er á næsta leiti. Ég veit að þar á að ræða tillögur um kjarnorkuafvæðingu í heiminum en hef hins vegar heyrt að kjarnorkuveldin séu þar að beita smáríki miklum þrýstingi. Þetta hefði ég gjarnan viljað geta rætt hér (Forseti hringir.) í dag en það er því miður ekki hægt.

Og mér er spurn: Hvar eru hæstv. ráðherrar? Eru þeir komnir af stað út í kosningabaráttuna meðan við erum hér enn í þinginu? En ég segi enn og aftur: Ég vona að við sjáum hilla undir lok þessa þings.


Efnisorð er vísa í ræðuna