145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:20]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og eins fyrir samstarfið í nefndinni þegar kemur að samgönguáætlun, sem var að mörgu leyti mjög ánægjulegt. Þó að okkur hefði verið sniðinn dálítið þröngur stakkur frá framkvæmdarvaldinu fjárhagslega held ég samt að nefndinni hafi tekist að vinna ágætlega úr því sem hún hafði úr að spila.

Mér fannst áhugavert að heyra þá áherslu sem hv. þingmaður byrjaði og endaði á, þ.e. að hið breytta vinnulag við meðferð málsins, ekki síst hér í þinginu. Menn hafa lista yfir hættusvæði þar sem hægt er að gera úrbætur varðandi öryggi. Menn gera jarðgangaáætlanir, áætlanir þegar kemur að stórframkvæmdum, en við sem vinnum með þetta hér í þinginu vinnum ekki með neinar svona upplýsingar. Við erum með samgönguáætlun eins og hún kemur fyrir og síðan fáum við alls kyns sjónarmið héðan og þaðan úr öllum landshlutunum. Síðan koma upp ad hoc-mál, eins og t.d. leiðin frá Fitjum upp að flugstöð.

Mig langar að taka undir með hv. þingmanni um að ég mundi vilja sjá að í framtíðinni ynni þingið betur með forgangsröðun sem byggði á hlutlægu mati sem tæki tillit til öryggisþátta og byggðaþróunarsjónarmiða, eins og t.d. sameiningar sveitarfélaga og annars slíks, að stutt yrði við það með öflugum samgöngustuðningi og að horft yrði til atvinnuþróunar. Þar er Dettifossvegurinn gott dæmi, það væri örugglega löngu búið að klára hann ef menn röðuðu (Forseti hringir.) með einhver slík sjónarmið í huga og þingmenn væru í raun og veru að fást við upplýsingar sem byggja á stefnumótun og staðreyndum.