145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:24]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svarið. Ég er nefnilega svo algjörlega sammála hv. þingmanni þarna. Málið varðandi Reykjanesbrautina opnaði augu manns fyrir þessu, maður velti fyrir sér af hverju svona vegarkafli færi ekki sjálfkrafa í eitthvert ferli. Þarna er augljóslega allt of mikið álag, allt of mikil umferð og þetta er hluti af aðalæðinni inn í landið. Við leggjum áherslu á ferðaþjónustuna. Ég vil sjá að þetta geti sjálfkrafa farið í eitthvert ferli, að þingmenn þurfi ekki að taka sig saman og þrýsta á að eitthvað verði gert af því að eitthvað gerðist. Maður veltir fyrir sér hvað við getum gert hér í þinginu, hvernig við getum breytt, hvaða verkfæri við getum búið okkur til til að geta unnið frekar með þeim hætti sem við vorum að ræða hér um.

Mig langar líka að nefna að eftir að hafa verið í þinginu í öll þessi ár er ég sjálf orðin alveg ofboðslega þreytt á umræðunni og þeirri sjálfkrafa andstöðu sem mér finnst ég oft finna gagnvart jarðgangagerð. Jarðgöng geta t.d. verið algjör lykill í því að styrkja landshluta. Tökum Austurland og Vestfirði sem dæmi þar sem jarðgangagerð er algjör lykill í því að hjálpa til við sameiningu sveitarfélaga, að búa til öfluga byggðarkjarna o.s.frv. Talað hefur verið um að fara þurfi í verkefni sem halda konunum á landsbyggðinni þannig að karlarnir haldist þar líka. Það er frekar þannig að þær flytja á höfuðborgarsvæðið og þeir koma svo á eftir. Þá finnst mér mikilvægt að við horfum til kynjavinkilsins þegar verið er að meta framkvæmdir um landið. Ég minni enn og aftur á áhugaverða rannsókn sem bendir til þess að Héðinsfjarðargöngin hafi gert akkúrat þetta, (Forseti hringir.) þ.e. styrkt stöðu kvenna á svæðinu. Mér finnst við þurfa að ræða jákvæðar um jarðgangagerð vegna þess að hún er gríðarlega mikilvæg fyrir framtíðarsamfélagið Ísland.