145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:36]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka við umræðuna um ljósleiðarann. Sú áætlun og hvernig fénu er útdeilt er unnið í samvinnu við landshlutasamtök sveitarfélaganna. Ég skil ekki annað en að það sé vilji þeirra að halda áfram þeirri útboðsleið sem farin hefur verið en að þau geri jafnframt kröfu á að komið sé með sérstaka aðstoð fyrir brothættu byggðirnar til þess að treysta þar byggð. Við höfum farið þá leið sem ég er nú ekki ánægður með hversu hægt gengur og hv. þingmaður á að þekkja úr fjárlaganefndinni. Þar var talað um að selja t.d. jarðir í Skaftárhreppi og nýta það fjármagn sem ríkið fengi fyrir þær jarðir inn í byggðastuðning á svæðinu og leggja þriggja fasa rafmagn og ljósleiðara. Ég held að við þurfum að finna einhverjar leiðir samhliða hinu. Þá náum við að gera hvort tveggja í einu, sem ég tel mikilvægt. Það er það sem ég ætla að tala um varðandi innanlandsflugið.

Þeir fjármunir sem við leggjum til eru fyrst og fremst hugsaðir til þess að reyna að lækka fargjöldin. Sá starfshópur sem skilaði af sér komst að þeirri niðurstöðu að álögur á miðann væru um 10% af farmiðaverðinu. Það skiptir vissulega máli, og hvort flugfélögin vilji koma okkur til móts um að lækka farmiðann um 10%. En ég efast um að það sé nóg. Við vildum ræða hvort hægt væri að bjóða út þessar flugleiðir, reyna að fá eitthvað meira fyrir peninginn, þær 300 millj. kr. sem þarna eru lagðar til, að við þurfum að nýta næstu missiri vel í að finna út hvernig við lækkum farmiðaverðið sem mest. Er það með útboði? Hvernig á að styrkja það?

Varðandi aflögðu vellina hafði ég hugsað mér að einkavélarnar og flugsamsamtökin tækju að sér að opna þá og reka þá, það væri undir þeim komið, og finna þá hagkvæmari leiðir til þess að halda þeim opnum, finna tækifærin og annað slíkt. Þegar við værum búin að finna þá leið mundum við sjá hvað mikla fjármuni við þyrftum í það, en þessir fjármunir eru ekki hugsaðir í það.