145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:39]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér fjögurra ára verkefnaáætlun á sviði samgöngumála fyrir tímabilið 2015–2018. Það er út af fyrir sig frekar sérstakt að vera að ræða áætlun aftur í tímann, en það eru ástæður fyrir því sem við ætlum ekki að dvelja við hérna. Áætlunin er unnin innan ramma stefnumarkandi áætlunar fyrir árin 2011–2022 og sú sem hér stendur tók aðeins þátt í þeirri umræðu þannig að mér er málið svo sem ekki alveg óskylt jafnvel þó að ég eigi ekki fast sæti á Alþingi.

Þessi verkefnaáætlun er um margt ágæt. Það gleður mig að sjá alla vega í orði en kannski ekki á borði tengingu við sóknaráætlanir landshluta og hefði ég gjarnan viljað eiga þá umræðu við formann nefndarinnnar ef hann kemur í sal. Verklag sóknaráætlunar landshluta var tekið upp í tíð síðustu ríkisstjórnar að erlendri fyrirmynd og er sennilega mjög öflugt byggðaþróunartæki að teknu tilliti til þess að allar áætlanir verði samræmdar í gegnum sóknaráætlun. Því er miður að sjá ekki sterkari tengingar við sóknaráætlun. En það kann að vera að þar sé einhver hugsun sem ekki kemur fram í sjálfri þingsályktunartillögunni.

Mér er, eins og öðrum þingmönnum sem rætt hafa um samgönguáætlun, auðvitað mjög umhugað um vegakerfið í landinu og er hugsi yfir ástandi þess í landinu almennt. Þá er ég fyrst og fremst að tala um þjóðveg nr. 1 vegna þess að hann er hryggjarstykkið í ferðum fólks um landið og afar mikilvæg lína, hvort sem hugsað er um öryggi eða annað, ég tala nú ekki um fyrir þróun í landinu. Það er auðvitað hörmung að sjá hvernig komið er fyrir vegakerfi landsins og því miður er í þessari tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun ekki gert ráð fyrir fjármunum til annars en rétt til að halda vegakerfinu í horfinu, hvað þá að bætt sé í. Við sjáum það öll sem förum reglulega út á land, sem við gerum vonandi sem flest sem sitjum á Alþingi, að það er í rauninni orðið hættulegt að aka á þeim leiðum sem eru hvað næst höfuðborginni þar sem umferðarþunginn er mestur. Ef ekið er seinni part dags þegar flutningabílar eru á leiðinni út á land frá höfuðborginni er það vægast sagt óþægilegt.

Við verðum að átta okkur að því að fjöldi ferðamanna hefur aukist um 33% frá síðasta ári og ef fram fer sem horfir munu væntanlega 1,6 milljónir ferðamanna koma til landsins á þessu ári, sem bætast þá við íbúa landsins, sem eru 320 þúsund, þannig að það ferðast þá kannski 2 milljónir manna um gatnakerfi landsins á hverju ári. Einhverjar tölur sá ég um að 30 þúsund ferðamenn kæmu daglega til landsins, þannig að ef við hugsum um það og horfum á þetta blessaða vegakerfi okkar, þjóðveg 1, þá gengur það ekki. Við verðum að horfast í augu við að það verður ekki bæði sleppt og haldið. Orðsporið getur fallið mjög hratt ef við höldum ekki vegakerfinu í horfinu, en það er kannski ekki það sem skiptir mestu máli heldur öryggismálin. Ég vona að við berum gæfu til að standa í lappirnar við að innheimta lögbundna, lögvarða tekjustofna Vegagerðarinnar af olíugjaldi og bensíngjaldi og uppfæra það til dagsins í dag, vegna þess að það munar um þá milljarða sem ekki hefur verið bætt í. Það mundi sannarlega muna heilmikið um það, jafnvel um helming miðað við þær tölur sem hér liggja fyrir.

Þá langar mig að koma að öðru verkefni sem tengist stofnkerfi landsins, og það er Sundabrautin. Það veldur mér miklum áhyggjum og óánægju, verð ég að segja, að sjá að Sundabrautin er ekki inni á þeirri tillögu til þingsályktunar sem nú er lögð fram til samþykktar. Henni er beinlínis hent út í tillögu ráðherra. Ég sé hana ekki komna inn í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar. Ég held að það séu mjög mikil mistök, vegna þess að Sundabrautin er orðin mjög brýn aðgerð til þess að létta á umferðarþunganum í norðurhluta höfuðborgarsvæðisins.

Eins og ég sagði gera áætlanir ráð fyrir að hingað komi 1,6 milljónir ferðamanna á þessu ári og einhvers staðar sá ég tölu um 2,5 milljónir innan tíu ára. Þar við bætist að gert er ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi verulega næstu árin og að hér verði 300 þúsund manns búsettir árið 2040. Sundabrautin er þannig samgöngumannvirki að við verðum að fara að huga að henni. Við getum ekki ýtt öllum þessum fjölda ferðamanna, fjölda vegfarenda, inn í byggðina í Mosfellsbæ og þar um slóðir. Ef við erum að tala um að fara í aðgerð til þess að styrkja stofnvegakerfið, m.a. með því að tvöfalda veginn um Kjalarnes, er skrýtið að gera ekki ráð fyrir að trektin inn til borgarinnar sé í gegnum stóra stofnbraut eins og Sundabrautina, hvort sem hún er tekin í göng eða brú eða hvernig sem menn vilja útfæra hana, en beina í staðinn öllum þessum umferðarþunga í gegnum byggðina í Mosfellsbæ og kljúfa þannig byggðina í sundur.

Ég treysti því og vona að það hafi verið yfirsjón hjá meiri hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar að kippa því ekki aftur í liðinn og setja inn á áætlun að halda þessu máli vakandi, því að það er á forræði ríkisins að sjá til þess að farið verði í þessa framkvæmd. Það þýðir ekki að setja inn í þingsályktunartillöguna að Sundabrautin sé tekin út vegna þess að kanna eigi leiðir til þess að setja hana í einkaframkvæmd. Ábyrgð ríkis, og eftir atvikum sveitarfélagsins líka, á því að þetta komist til framkvæmda er mikil og með því að halda þessu inni í tillögunni er málinu alla vega haldið vakandi og ábyrgð ríkisins á því að leiða það til lykta er haldið til haga.

Ég vildi líka ræða almennt um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu, sem er að mínu viti litið frekar mikið fram hjá í tillögunni þó að það séu vissulega atriði þar inni sem má hrósa og mun ég að sjálfsögðu gera það.

Við verðum að átta okkur á því, eins og fram kom í máli mínu áðan, að gert er ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins muni fjölga, að þeir verði orðnir 300 þúsund árið 2040. Þegar við bætist allur þessi fjöldi ferðamanna sem koma flestir til Reykjavíkur og mjög margir á bílum, er auðvitað ótækt að ekki skuli vera tekið meira tillit til þess í þingsályktunartillögunni að langmesti umferðarþungi landsins er á þessu svæði. Við viljum öll halda byggð í landinu sem víðast og að þar blómstri byggð, en við verðum að horfast í augu við að án góðrar höfuðborgar verður ekki heldur öflug landsbyggð og öfugt. Í rauninni á þetta ekki að vera spurningin um keppni á milli höfuðborgar og landsbyggðar. Þetta er eitt samgöngukerfi. Ef við hugsum til þess að langmestur þunginn er hér á höfuðborgarsvæðinu verður að taka tillit til þess í fjárveitingum ríkisins.

Nú nýverið hefur tekist samkomulag milli allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar liggur til grundvallar að við erum með svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið sem gildir frá árinu 2015–2040 og er, eins og nafnið bendir til, skipulag fyrir öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu.

Í umferðarspá sem gerð var í tengslum við aðalskipulag höfuðborgarsvæðisins kemur fram í skýrslu VSÓ sem hún vann um umferðarskipulagið, kemur m.a. fram að allar rannsóknir bendi til þess að breytingar á ferðavenjum hafa talsvert meira vægi en auknar framkvæmdir í því að draga úr umferðarálagi.

Í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að unnið verði að því að breyta verulega ferðavenjum fólks á þessu svæði. Miðað er við forsendur um breyttar ferðavenjur. Er heildarrekstur áætlaður um 5,8 km á sólarhring og að óbreyttu muni aukning á umferðarálagi fram til ársins 2040 verða um 54%. Með því að breyta ferðavenjum má draga úr umferðaraukningu þannig að álagið aukist aðeins um 36% frá árinu 2012. Þá erum við að tala um að koma á bættum almenningssamgöngum og fleiri hjólreiðastígum eða öðrum valkostum en einkabílum við að fara á milli staða.

Það er auðvitað mjög sérstakt að vera á ferðinni í úthverfum borgarinnar eða stofnbrautum inn og út úr borginni seinni part dags og horfa á bíl eftir bíl þar sem situr ein manneskja og bíður eftir að komast áfram á meðan vélin gengur. Það er algjörlega ótækt og við verðum bara til að standa við skuldbindingar okkar í Parísarsamkomulaginu að draga verulega úr því. Sem betur fer er sú vinna vel á veg komin og er mjög ánægjulegt að sjá í þessari þingsályktunartillögu um samgönguáætlun og verkefnaáætlun samgöngumála að styrkja á almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu verulega. En auðvitað mætti spýta betur í til þess að hraða þessu ferli enn frekar.

Það er gaman að segja frá því að náðst hefur sátt um það á meðal sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að setja í forgang í samgöngumálum svokallaða borgarlínu sem tengja á með skilvirkum hætti öll sveitarfélögin á svæðinu og tryggja að fólk komist á milli svæða á hraðan og öruggan hátt. Það er hugsað þannig að öflugar tengingar verði milli allra helstu sveitarfélaganna og þannig að öll muni njóta góðs af því vegna þess að það er ekkert sérstakt keppikefli að Reykjavík vaxi miklu meira umfram önnur sveitarfélög í nágrenni borgarinnar. Það er mjög skynsamlegt að líta á það sem eina heild. Auðvitað er það efni í aðra ræðu, herra forseti, hvort ekki sé rétt að fara að sameina sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. En við látum það liggja milli hluta núna.

Þetta er góð vinna sem vert er að halda til haga og styðja við. Nú nýverið kom út skýrsla úr ferðalagi fulltrúa allra sveitarfélaganna til borga austan hafs og vestan. Niðurstaðan er væntanlega sú að horft verði á hraðvagnakerfi frekar en hraðlestakerfi. Er verið að skoða fjármögnun þess kerfis í samvinnu við ríki, sveitarfélög og einkaaðila og sýnist mér fljótt á litið að einkaaðilar muni njóta góðs af því þeirri hugmynd og fá aðkomu að því verki. Staðreyndin er sú, sem liggur fyrir eftir úttektir, að þau svæði sem verða vel tengd þessari borgarlínu munu vaxa hratt og dafna og vaxa mjög að verðgildi þegar borgarlínan er komin. Það er því mjög skynsamlegt að þeir fjárfestar sem byggja munu upp á þessum svæðum taki þátt í kostnaði við uppbygginguna. Þetta módel þekkist annars staðar og er vel að það skuli tekið upp hér á landi líka, eða vera til skoðunar í það minnsta.

Virðulegur forseti. Þá er ég um það bil að fara að ljúka máli mínu. Ég vil þó að lokum tala um það sem mér finnst skipta verulegu máli þegar horft er til framtíðar í uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins, það er flugvöllurinn í Vatnsmýrinni. Ég er eindregið fylgjandi því og talsmaður þess að flugvöllurinn verður fluttur úr Vatnsmýrinni og að þar verði byggt upp öflugt vaxtarsvæði til hagsbóta fyrir landið allt, þar verði þekkingarmiðstöð með háskólanum sem yrði hvor sínum megin við flugvöllinn þar sem hann er núna. Auk þess tel ég mjög mikilvægt fyrir landsbyggðina að hún fái miklu greiðari og tíðari samgöngur á milli þessa landshluta og eigin svæðis. Það er ekki spurning og það er ánægjulegt að sjá það að Flugfélag Íslands sé að hefja ferðir á milli Keflavíkurflugvallar og Akureyrar, en ég held að það sé miklu skynsamlegra að horfa á þetta í stærri mynd vegna þess að fyrir flesta íbúa landsins, ég tala nú ekki um ef það verður komin hraðlest á milli Reykjavíkur og Keflavíkur, eða Reykjavíkur og Hvassahrauns, verður sá tími sem tekur að ferðast þar á milli mjög stuttur og mjög lágt hlutfall af heildarferðatíma íbúa landsins.

Svo er það líka efni í aðra messu og aðra ræðu að ræða fargjöld og verðlag á fargjöldum innan lands, sem er því miður allt of hátt þannig að venjulegt fólk getur varla notað þennan kost lengur,. Það eru auðvitað ferðamenn sem bera innanlandsflugið uppi. Ég held að sé engin spurning að það væri mjög mikil innspýting fyrir alla landshluta að ná beinni tengingu við Keflavíkurflugvöll, þ.e. fyrir ferðaþjónustuna á því svæði.

Svo er annað mál sem ég hef oft velt fyrir mér, virðulegur forseti, og ég hef svo sem ekki fundið stað í umræðum á Alþingi. Það varðar öryggi flugvallarins í miðborginni, og þá er ég að hugsa um dróna. Síðastliðið sumar þegar við vorum að horfa á fótboltann, fagna landsliðinu eða mótmæla á Austurvelli eða hvað sem er, voru margir með dróna á lofti sem eru beinlínis í fluglínu þeirra flugvéla sem koma inn til lendingar á flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Það þarf ekki að leita mjög lengi á alnetinu til að sjá að þessi vá eykst sífellt og hún er mjög raunveruleg. Við þurfum svo sem ekkert að fara í neina hamfararhugmyndir eða lýsingar á því hvað getur gerst, en það er hins vegar veruleiki sem blasir við. Það er mjög algengt að þegar fjölmennar samkomur eru í miðborg Reykjavíkur eru drónar á flugi. Ég held að við eigum ekki að fara neitt lengra með þá lýsingu.

Það er svo ótalmargt sem segir mér að það er engin skynsemi í því lengur að ströggla við að halda flugvellinum í Vatnsmýrinni. Þetta er mjög mikilvægt svæði þar sem hægt er að byggja upp þekkingariðnað og efla hann, þekkingariðnað til hagsbóta fyrir allt landið í samkeppninni við önnur lönd. Ég tala úr þessum stóli en ég hef búið úti á landi og starfað mikið úti á landi. Mér finnast það ekki vera rök í málinu, virðulegur forseti, að þessar örfáu ferðir þar sem tíminn skiptir verulegu máli eigi að ráða því að innanlandsflugvöllur landsmanna skuli vera staðsettur í miðborginni en ekki á svæði þar sem öll rök benda til að sé skynsamlegra að hafa flugvallarstarfsemi.