145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:05]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Svo ég taki upp það sem hún nefndi síðast og skoði það í samhengi þá er það svo skemmtilegt sem er að gerast núna á vettvangi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að full samstaða er um að hefja undirbúning að svokallaðri borgarlínu. Það er alveg stórkostlegt framfaraskref. Hvort það verða hraðlestir eða hraðvagnar skiptir ekki máli í útfærslu, það er bara spurning um peninga eða kostnaðarmat og annað því um líkt. Hugmyndin er þessi: Það er orðin full sátt um að byggja upp allt svæðið sem eina heild með tilliti til samgangna. Þá erum við auðvitað komin að ystu brún Hvassahrauns, ef því er að skipta. Ég man ekki alveg hvernig tölurnar eru. Það er um það bil þannig að það tekur ekki nema 20 mínútur að fara með hraðvögnum á milli þessara sveitarfélaga eða á þessari borgarlínu. Þá tekur mann kannski 20 mínútur að fara frá syðstu mörkum Hafnarfjarðar og inn í miðborg Reykjavíkur að hámarki og jafnvel styttri tíma. Það skiptir miklu máli. Auðvitað horfum við á flugvallarmálið í því samhengi.

Við erum beinlínis komin í samkeppni við önnur lönd um fólk og fyrirtæki. Við erum að fara að byggja hér upp til framtíðar. Sú sem hér stendur vinnur mikið með nýsköpunarfyrirtækjum í landinu. Mér finnst það alveg óskaplega gaman að sjá hve margt er að gerast á þeim vettvangi. Þá verður mér sífellt betur ljós sá veruleiki að við verðum að styðja við fólk sem vill búa hér til framtíðar, skapa sér vettvang og lífsskilyrði hér á landi. Unga fólkið í dag vill vera í nýsköpun, hvort sem það er í ferðaþjónustu, hugbúnaði, lyfjatækni eða öðru því um líku. Það er mín sannfæring að vísindaþorp í Vatnsmýrinni (Forseti hringir.) sé algjörlega nauðsynleg næring fyrir þá sem vilja standa að nýsköpun (Forseti hringir.) í landinu með Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík hvorn sínum megin við núverandi flugvöll.