145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:28]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi Sundabrautina er gert ráð fyrir því að hún sé inni á langtímaáætlun. Ég hygg líka að hún sé í þeim drögum sem nú er verið að vinna að, svokallaðri hvítbók, á sviði samgöngumála sem innanríkisráðherra hefur beitt sér fyrir þannig að ég veit ekki hvort tiltekinn liður í þessari áætlun breyti miklu þar um. Ég held hins vegar að það sé mikilvægt fyrir okkur sem höfum áhuga á þessu máli að halda umræðunni á lofti þannig að bæði sá ráðherra sem nú fer með þennan málaflokk og sá eða sú sem kann að taka við að kosningum loknum haldi áfram að vinna að málinu þannig að það geti komist á framkvæmdastig.

Ég hef dálítið gaman af því að rifja það stundum upp að ætli það sé ekki aldarfjórðungur síðan ég sá fyrst tillögur að Sundabraut og staðsetningu hennar, þá nefndarmaður í umhverfisnefnd Reykjavíkurborgar upp úr 1990. Þá sáu menn fyrir sér að þetta væri verkefni sem yrði farið í innan fárra ára. Síðan eru liðin 25 ár. Ég vona að eftir 25 ár verðum við að velta fyrir okkur einhverjum allt öðrum verkefnum, búin að ljúka þessu og með það langt að baki en verðum ekki með það enn þá á teikniborðinu.