145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:32]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er ég ekki ósammála þessari áherslu hv. þingmanns. Ég held hins vegar að uppbygging þess sem kallað er þekkingarþorp í Vatnsmýrinni sé ekki sterk rök fyrir því að færa flugvöllinn vegna þess að ég hygg að það sé auðveldara að koma slíkum kjarna, slíkum klasa, fyrir eða færa hann eða byggja hann upp einhvers staðar annars staðar en akkúrat á þessum stað, hvort sem það væri úti á Granda eða annars staðar. Þó að tengingin við háskólana skipti auðvitað máli þá held ég að það sé auðveldara að færa til slíka starfsemi en eitt stykki flugvöll.

Hins vegar vildi ég almennt um þetta segja að þegar við ræðum flugvöllinn þurfum við að hafa í huga að hann skiptir máli auðvitað út frá neyðarflugi, sjúkraflugi og slíku. En hann er líka mikilvægur liður í almenningssamgöngukerfi landsins ef við getum sagt sem svo í landi þar sem ekki er fyrir hendi lestarkerfi eða önnur slík kerfi sem þjóna sambærilegu hlutverki víða annars staðar. Þrátt fyrir að leiðir inn og út úr borginni eða milli höfuðborgarsvæðisins og einstakra kjarna úti á landi séu að styttast og ferðatíminn styttist og annað þess háttar þá verða held ég ákveðnir staðir þar sem flugið mun áfram skipta máli í skilningi almenningssamgangna. Ég nefni Egilsstaði, Höfn, Vestmannaeyjar, Ísafjörð og áreiðanlega um langt árabil Akureyri líka. Við þurfum að hugsa það líka út frá því hvernig flugvöllurinn gegnir hlutverki við að tengja saman höfuðborg og þéttbýli.