145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst ætla ég að hæla hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu, yfirgripsmikla og góða, um samgöngumál. Það gleður mig alltaf þegar þingmenn Reykjavíkurkjördæmis ræða um samgöngumál af jafn mikilli þekkingu og framsýni og hv. þingmaður gerir, sama hvort það eru framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni.

Ég ætla líka að segja það, eins og ég hef sagt við aðra, að mér finnst mikill myndarbragur á því að nefndin sem hv. þingmaður situr í, umhverfis- og samgöngunefnd, hafi tekið þá samgönguáætlun sem lögð var fyrir, sem var samgönguáætlun um lítið sem ekki neitt, og betrumbætt hana í meðförum Alþingis. Nefndin sýnir sjálfstæði, kjark og dug og kemur með breytingartillögur alveg eins og minni hlutinn gerir og ég vona að eitthvert tillit verði tekið til þeirra.

Hér eru breytingartilllögur, að mér skilst, upp á um 6 milljarða hvort ár, 2017/2018. Það er mikill bragur á þessu finnst mér. Mér finnst alltaf að nefndir eigi að sýna slíkt frumkvæði eins og hér er gert þegar lélegar tillögur koma frá framkvæmdarvaldinu. Þetta er það sem hefur verið að gerast í störfum Alþingis, sérstaklega síðustu ár, og er til fyrirmyndar. Fyrir það ber að þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni eins og öðrum. Ég segi líka: það er mjög margt gott í tillögum minni hlutans sem ég vona að komi til.

Í þessu andsvari ætla ég að tala um það sem ég var ekki alveg sammála hv. þingmanni um, þ.e. framkvæmdirnar á erfiðleikaárunum eftir bankahrun. Ég hef súlurit frá Vegagerðinni þar sem sést að árin 2007, 2008, 2009 og 2010 eru metár í framkvæmdum. Þá er ég bara að taka fjárútlátin á þessum tíma. Það tók virkilega í að halda þessum fjárveitingum til þess að fara í þær stóru og miklu framkvæmdir sem þá var farið í. Ég leyfi mér að segja, virðulegi forseti, að þá var slegið Íslandsmet (Forseti hringir.) í framkvæmdum, auðvitað stutt af því að skapa þurfti vinnu í arðbærum og góðum verkum sem juku mjög öryggi eins og hv. þingmaður (Forseti hringir.) fjallaði um.

Ég spyr: Erum við hv. þingmaður ekki sammála um það sem þarna var gert?