145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:37]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að deila um þetta, hvorki við hv. þm. Kristján Möller né súluritin. En við munum það frá þeim tíma að þetta var ekki átakalaust. Hv. þingmaður, sem þá var samgönguráðherra, þurfti að hafa fyrir því að halda uppi þessu stigi. Það var, ef ég man rétt, árið 2011 sem fór að slaka á og þá munum við eftir að menn ræddu það að kannski væri auðveldara að hætta við að fara í nýjar framkvæmdir frekar en að segja upp starfsfólki á stofnunum eða þess háttar. Þetta er alltaf erfitt val.

Ég held að við sem tókum þátt í umræðum um þessi mál á þessum tíma höfum gert okkur grein fyrir því að með því að draga úr framkvæmdum á þessum tíma værum við ekki að ná neinum varanlegum sparnaði heldur bara ýta fram í framtíðina kostnaði sem mundi koma til. Ég get út af fyrir sig verið þeirrar skoðunar að við höfum kannski verið fullvarfærin í að auka í aftur, en hafa verður í huga að ekki bara á sviði samgöngumála heldur á öllum sviðum opinberra útgjalda hefur verið mikill þrýstingur á að auka í framlög og mikil jafnvægislist að stýra því þannig að ekki sé verið að eyða um efni fram eða að menn séu ekki að fara fram úr sjálfum sér.

Um það getum við hv. þm. Kristján Möller verið sammála að það er mjög jákvætt og gott þegar við sjáum svigrúm til þess að auka í á þessu sviði án þess að það skaði stöðugleika eða hafi neikvæð áhrif á stöðu ríkissjóðs.