145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[12:39]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar; við erum sammála þarna. Á þessum tíma voru unnin mörg ný verk á svæðum sem voru með vegakerfi eins og var á höfuðborgarsvæðinu fyrir 60 árum. Í raun og veru var það að vissu leyti viðhald líka. Nýbygging eins og á 60 km vegi til Vopnafjarðar þarf sama og ekkert viðhald þar á næstu árum, jafnvel áratugum, en það þurfti mikið viðhald meðan vegurinn var einbreiður, holóttur, með grjóti á allar hliðar o.s.frv. Ekki meira um það. Við erum sammála um þessa þætti.

Það var virkilega gefið í. Það var gert strax 2007 í ríkisstjórn sjálfstæðismanna og Samfylkingar. Í ræðu hér úti á Austurvelli þann 17. júní var boðaður mikill niðurskurður í þorskaflaheimildum, en jafnframt sagt, af þáverandi hæstv. forsætisráðherra Geir Haarde, að gefa þyrfti í á öðrum sviðum. Daginn eftir var sest niður og þar var bætt við, ef ég man rétt, á þáverandi verðlagi 6 milljörðum kr. í framkvæmdir á þessum tíma.

Ég ætla aðeins að snúa mér að því sem ég var sammála hv. þingmanni um í tali um Reykjavíkurflugvöll og miðstöð innanlandsflugs í framtíðinni. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að völlurinn eigi að vera þar sem hann er, en hef oft sagt að aðilar sem deila eigi að geta rætt um ákveðna útfærslu sem hægt verði að gera breytingar á.

Niðurstöður Rögnu-nefndarinnar voru mér að vissu leyti vonbrigði nema að því leyti til að ekki er lengur rætt um Hólmsheiði. Það er bara út af borðinu. Það kom mér ekki á óvart. En það er nefndur möguleiki hér stutt frá, Hvassahraun. Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að við fáum ekki að ryðja það hraun út til að búa þar til flugvöll, enda held ég að það sé arfavitlaus hugmynd. Annaðhvort verður miðstöð innanlandsflugs áfram á Reykjavíkurflugvelli í 10 til 20 ár, eða Guð má vita hver þróunin verður. Ef völlurinn verður lagður niður af andstæðingum (Forseti hringir.) flyst innanlandsflugið til Keflavíkur og þar deyr það drottni sínum hægt og sígandi vegna þess að ferðatíminn verður of langur (Forseti hringir.) og þá fellur styttra flug niður.

Virðulegi forseti. Þetta er mín sýn á það hvar við eigum að hafa innanlandsflugvöll í framtíðinni og miðstöð innanlandsflugs. Ég veit að við hæstv. forseti erum algjörlega sammála um þetta mál.