145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[13:47]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til þess að byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fór kannski ekki vítt og breitt um landið, að vísu svolítið, en hann einbeitti sér að Suðurlandinu og sér í lagi Reykjanesskaga. Núna hafa verið uppi hugmyndir um að reyna að koma á almennilegum hraðlestum eða hraðari almenningssamgöngum milli Keflavíkur og Reykjavíkur eða höfuðborgarsvæðisins. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann hvort hann sjái það sem mögulega lausn til þess að tryggja betur umferðaröryggi, reyna að stýra þessum mikla fólksfjölda í raun og veru meira út í almenningssamgöngur á þessu svæði. Ef við erum með færri bíla þá erum við náttúrlega með færri möguleika á umferðarslysum, að bílar lendi saman og þar fram eftir götunum.

Einnig langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sakni ekki þess að talað sé um heildstæðara plan fyrir hjólreiðastíga um landið. Ég veit að það eru samtök hjólreiðamanna hér á Íslandi sem hafa verið að reyna að fá hjólreiðabraut einmitt á Reykjanesskaga, sunnanverðum Reykjanesskaga, milli Keflavíkur og Þorlákshafnar og hvort það mundi ekki vera góð búbót fyrir bæði túrisma og útivist og fleira á þessu svæði, enda alveg gífurlega fallegt þarna. Veit hv. þingmaður eitthvað meira um það þar sem hann er nú frá þessu svæði?