145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[13:58]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir fyrirspurnina. Ég er eiginlega sammála því að við eigum að skoða það með opnum hug að fara aftur í strandsiglingar. Eins og hv. þingmaður segir er gríðarleg umferð stórra bíla á þjóðvegum landsins. Það er nú oft þannig þegar maður mætir þeim að maður er hálfsmeykur, þeir keyra svo sem ekkert mjög hægt.

Ég er líka algjörlega sammála þessu með almenningssamgöngurnar. Við eigum að setja okkur markmið í því til næstu ára hvernig við getum aukið þátt almenningssamgangna í umferðinni, hv. þingmaður nefndi loftslagsmarkmiðin og annað, því að það fylgir gríðarleg mengun öllum þessum bílaflota. Ég segi sem dæmi að ég var í Noregi í maí og dvaldi í miðborg Ósló hjá vini mínum þar. Þegar ég fór heim í flug þá labbaði ég í tvær mínútur og síðan var ég innan dyra þangað til ég kom út úr Leifsstöð. Þar er kerfið náttúrlega strætó og sporvagnar og ég gat keypt mér app í símann sem ég keypti mér fyrir daginn, síðan gat ég farið í strætó, ég gat farið í lestar, ég gat farið í léttvagna og ég gat farið í siglingu um Óslóarfjörð, bara með þessu eina appi. Þetta er náttúrlega eitthvað sem við þurfum að skoða. Við getum gert þetta svona. En við erum svolítið á eftir öðrum og við erum í þessum einkabílabransa. Það er náttúrlega lögð mikil áhersla á einkabílinn, þetta er eins og með húsnæðismálin, allir eiga að eiga eign og við erum þannig, Íslendingar, kannski af því að við búum við öðruvísi aðstæður en margir aðrir og við erum mjög fá. Það er oft langt á milli staða og erfitt að halda uppi samgöngum t.d. eins og á Suðurnesjum, nú er ótrúlega mikið flæði vinnuafls alls staðar á Suðurnesjum. Það er mjög erfitt að halda úti almenningsssamgöngum, fólk þarf kannski að bíða tímunum saman eftir að fá far með rútu, í staðinn fyrir ef samgöngur væri örari. Það er líka eitt af því. Við erum svo fá og það getur oft verið erfitt að gera þetta.