145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef svolitlar áhyggjur af því síðasta sem hv. þingmaður sagði um að þessar byggðir legðust af ef ekki yrði unnið mjög markvisst í ljósleiðaramálum. Auðvitað hefur það verið til umræðu á kjörtímabilinu að ljósleiðaravæða þessa staði. Það hefur gríðarlega mikið að segja. Ég get nefnt t.d. Kirkjubæjarklaustur sem er eitt af þeim sveitarfélögum sem voru undir því formerki að vera brothætt byggð. Þau eru náttúrlega fleiri eins og Raufarhöfn og Breiðdalsvík, þar er nú reyndar allt að fara af stað sýnist mér og ferðamenn hafa breytt miklu og þeir hafa breytt miklu fyrir Kirkjubæjarklaustur.

Það er alveg ljóst að ef við viljum halda fólki heima og fá fólk heim aftur í þessi sveitarfélög þá verðum við að laga þetta og leggja ljósleiðara fyrir fullkomnari fjarskipti og gera þetta aðlaðandi. Það segir sig alveg sjálft. Við erum að ræða samgönguáætlun þar sem fjarskipti falla undir og annað og þetta er lykilþáttur í byggðaþróun. Ég hef nefnt Færeyjar áður í ræðu um samgönguáætlun. Þar bora þeir bara göng undir sjó og t.d. núna er verið að bjóða út göngin frá Austurey og yfir í Straumey, frá Rúnavík og yfir í Þórshöfn í Færeyjum, sem mun gjörbylta öllu. Þá mun það taka 10 mínútur að keyra frá Rúnavík yfir í Þórshöfn í staðinn fyrir að keyra 75 km leið sem tekur klukkutíma. Þetta gera þeir gagngert til þess að halda þessum sveitarfélögum og bæjum í byggð. Það virðist vera sú þróun, borgarþróun, að borgin sogar til sín allan mannafla. það er nú kannski vandinn eins og ég hef nefnt áður að við erum allt of fá. Það er nú eitt af markmiðum okkar Bjartrar framtíðar að vera orðin 800.000 eftir nokkur ár, en það er kannski svolítið djörf áætlun, en það mundi breyta miklu fyrir lífið í landinu ef við værum aðeins fleiri.

Talandi um ljósleiðara. Það vantar líka þriggja fasa rafmagn niður í þessi byggðarlög. Það er árið 2016 hjá samfélagi sem framleiðir 18.000 gígavattstundir af rafmagni.