145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum haft mjög framsýnan ráðherra samgöngumála, hann situr á forsetastóli fyrir aftan mig og heitir Kristján L. Möller. Það má sjá í nefndaráliti minni hlutans, sem hlutfall af landsframleiðslu, hvernig fjármunum var varið í hans tíð í samgönguráðuneytinu. Þá tóku menn ákvörðun um að taka dálítinn sprett inn í framtíðina, en síðan höfum við verið með ríkisstjórn sem hefur beinlínis sagt að þetta hafi ekki verið forgangsatriði. Núna koma þau og ætla að setja pening í viðhald vega og margir segja: Já, það er nú bara af því að það eru að koma kosningar. Mér er eiginlega alveg sama, vegna þess að nauðsynin er orðin svo mikil. Ef það þurfti kosningar til að fá peninga inn í samgöngukerfið, þá er það bara fínt. En ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það að þessi grunnþáttur að tryggja fjármunina til að verja fjárfestingar — mundum við ekki gera það í hvaða fyrirtæki sem er? Er það ekki það sem við reynum flest alltaf að gera, þ.e. að verja þær fjárfestingar sem þegar hefur verið ráðist í? Annars erum við komin út í það að þurfa að endurfjárfesta frá grunni, að búa til nýjan veg í staðinn fyrir að laga þann sem fyrir er. Ef það er augljóslega mikil hætta á einhverjum vegarkafla þá á það mál að fara í ákveðinn farveg. Mér finnst það álíka gefið mál að viðhald eigi að tryggja fyrst og síðan einstakar framkvæmdir.