145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:25]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við hv. þingmaður erum 100% sammála þegar kemur að þessu. Eftir að ég eignaðist bíl og fékk bílpróf hef ég rúntað aðeins um landið. Það er þvílíkur munur milli landsvæða á því hvernig vegirnir eru. Mér þykir það ósanngjarnt. Ef við erum að tala um 11 milljarða í viðhald á vegum þá gætum við notað þá upphæð í viðhald vega á Vestfjarðakjálkanum einum, á sunnanverðum Vestfjörðum einum. Vegirnir þar eru náttúrlega — ég veit ekki hvað skal segja — bara umferðarslys; að ekki sé talað um veginn út á Látrabjarg.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í veginn út á Látrabjarg, þar sem er gífurlegur ferðamannastraumur. Þarna er fólk að fara á húsbílum, á risastórum bílum, á litlum smábílum sem hafa ekkert í þennan veg. Þarna er þverhnípi niður og ekkert til þess að grípa eða styðja við. Erum við komin á þann stað að þurfa að loka vegum til að tryggja öryggi, t.d. veginum út á Látrabjarg, þ.e. ef ekki er að koma nýtt fjármagn þar inn? Erum við komin á þann stað að við hreinlega getum ekki haldið sumum vegum opnum, og það að perlum eins og Látrabjargi, út af því að aðstaðan er of hættuleg? Við höfum vanrækt þessa náttúruperlu og það tækifæri sem Látrabjarg er.

Er einfaldlega kominn tími til þess að loka og segja: Því miður, við þurfum að laga þennan veg? Við erum bara að bíða eftir því að hræðilegt stórslys gerist. Þarna eru rútur að fara um. Eigum við að bíða eftir því að þær renni niður út af því að vegurinn gefur sig? Ætlum við virkilega að vera þarna? Vegir geta valdið umferðarslysum. Forvarnir í vegagerð felast einfaldlega í því að laga vegina.