145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:30]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Mér fannst hún afar áhugaverð eins og gjarnan. Það er alltaf gott að heyra þegar fólk sem er búið að starfa í nefndinni og hefur fengið til sín gesti segir svolítið frá hvernig þetta blasir við. Ég þekki það reyndar líka í gegnum fjárlaganefnd; þar koma allar sveitarstjórnirnar, þar eru samgöngumálin, ljósleiðaramálin, núna þriggja fasa rafmagnið og þetta er einhvern veginn allt undir. Maður þykist því vera örlítið inni í þessu og svo búandi einmitt á svæði þar sem ýmislegt hefur verið gert en margt er ógert eins og hér var nefnt t.d. um Dettifossveg, þó að gerð sé tillaga um að því verki verði lokið. Það eru líka þessir vegir, þessir slæmu vegir, bara á Hringvegi 1 sem eru ómalbikaðir, eins og títtnefndur Berufjarðarbotn, líka í Langanesbyggð og á fleiri stöðum þar sem er ófremdarástand.

Mig langar aðeins að spyrja, af því að talað hefur verið mikið um öryggismál, hvað þingmanninum finnst um þá hugmynd að taka upp í einhverjum mæli strandsiglingar aftur, ekki kannski eins og þær voru hér forðum því að nútíminn krefst annars. En er eitthvað sem mætti færa af þjóðvegunum og í strandsiglingar aftur þannig að við gætum minnkað þetta álag? Eins og ég sagði áðan að þegar ég keyri bara á milli Akureyrar og Ólafsfjarðar mæti ég gjarnan mörgum flutningabílum. Þeir fara reyndar um ákveðna daga í viku og þetta eru fleiri, fleiri bílar. Þetta er gríðarlegt öryggismál líka. Ég velti fyrir mér hvort hugmyndin er galin eða hvort þetta er framkvæmanlegt. Mig langar aðeins að heyra í þingmanninum um það.