145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:32]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Takk fyrir þetta. Ég get eiginlega ekki svarað því vegna þess að ég er bara svoddan tæknikrati í mér stundum að ég vil bara láta sérfræðinga reikna svona hluti út. Mér finnst þetta vera hluti af einhverju praktísku úrlausnarefni. Ef við setjum okkur það markmið að við viljum minnka þungaflutninga á þjóðvegunum innan um alla ferðamennina og allt það, þá eigum við að fá einhvern mannskap í að finna út hvað er hagstæðast í því. Kannski mundi þetta lagast ef ein hugmyndin sem við viljum láta skoða og nefnum í minnihlutaálitinu næði fram, þ.e. þetta mundi að einhverju leyti lagast ef aðskildar akreinar væru t.d. strax milli Reykjavíkur og Akureyrar, það mundi breyta mjög miklu. Þá yrði minni þörf á strandsiglingum. Ég veit bara ekkert um þessa hluti. Ég er alveg til í að við setjumst niður og setjum einhver markmið og fáum svo til þess bæra sérfræðinga til að reikna þetta út og finna bestu niðurstöðuna í þessu. Stundum erum við of rög við þetta. Við eigum það til að fara að halda með einhverri leið í staðinn fyrir að halda með einhverju markmiði og vera svo tilbúin að ræða leiðirnar að því.

Mig langar líka aðeins að nefna í tilefni af því að við erum að ræða þessa aðskildu akstursstefnu milli Akureyrar og Reykjavíkur að í allri þessari umræðu um lestarsamgöngur á ég mér þann draum að lifa það að sjá að svona „hovedbanegården“ eða eitthvað slíkt í höfuðborginni, að við verðum með lestarstöð í borginni. Mér finnst einhvern veginn að allar alvöruborgir eigi að hafa lestarstöð, en kannski er það gamaldags hugsun. En ég held að við ættum líka að horfa til þessara stóru leiða — af hverju ekki að fara (Forseti hringir.) að skoða það að kannski er lest á milli Akureyrar og Reykjavíkur eitthvað sem kemur í framtíðinni? Maður (Forseti hringir.) veit þetta ekki. En ég vil að við förum að horfa þangað og spá í það hvort það sé sniðugt.