145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:49]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég verð nú að vera sammála hv. þingmanni, við höfum ekki sinnt innviðauppbyggingu eins og skyldi og vegirnir hljóta náttúrlega að teljast hluti af þeim grunninnviðum sem íslenska ríkinu ber að tryggja að séu til staðar.

Ég veit að hv. þingmaður tengir mikið við Vestfirði og býr þar að sjálfsögðu, eins og allir eiga að vita. Það er áberandi við vegina á Vestfjörðum hversu langt á eftir þeir eru miðað við aðra vegi á landinu. Jú, það eru fleiri tugir einbreiðra brúa á Suðurlandi. Jú, það eru einhverjar heiðar á Norðausturlandi sem eru kannski ekki í besta standi, en ástandið er ekki nærri því jafn slæmt og það ég hef upplifað við að keyra sunnanverða Vestfirði. Þó hef ég nú farið víða, m.a. keyrt í Georgíu þar sem er þverhnípt niður, en þar voru samt skárri vegir en vegirnir á sunnanverðum Vestfjörðum. Mig langar til þess að spyrja hvort hv. þingmaður viti af hverju þetta er svona. Af hverju er ekki búið að malbika? Af hverju er ekki búið að sjá til þess að þessir vegir séu öruggir? Ferjan Baldur er í raun skárri kostur en keyra þessa vegi. Maður sér líka að öll býlin sem voru þarna hafa lagst í eyði. Maður spyr sig hvort þetta sé framtíð Vestfjarða ef við komum ekki til móts við þá sjálfsögðu kröfu að uppfæra vegakerfið þarna þannig að það sé aðeins nær 21. öldinni en þeirri 19., því að þetta virðast í besta falli vera einhverjir hestaslóðar sem sett hefur verið bundið slitlag á.