145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:54]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála hv. þingmanni um að það á náttúrlega að vera sjálfsögð krafa á 21. öldinni. Nú veit ég ekki hvort það sé satt, en vinur minn sem er sagnfræðingur og mikill Vestfirðingur, sagði mér að þeir vegir sem við værum að þræða á bílum nú til dags fyrir vestan hefðu upphaflega verið slóðar fyrir hesta og gangandi fólk. Síðan hefur náttúrlega margt gerst, við erum komin með bíla og jafnvel eru þungaflutningar um þessa vegi. Ég veit ekki um hversu margra prósenta halla er að ræða sums staðar á heiðum, jafnvel upp í 16%, og u-beygjur sem eru stórhættulegar, svo ekki sé minnst á það þegar komin er smá bleyta eða krap, þá veit maður ekki hvað getur gerst. Mér þykja aðstæðurnar á sunnanverðum Vestfjörðum ekki vera mönnum bjóðandi. Ég skil vel að Vestfirðingar séu mjög hugsi yfir byggð á Vestfjörðum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann aðeins út í veginn út á Látrabjarg. Látrabjarg er náttúrlega eitt stærsta fuglabjarg í Evrópu og hefur mikla sérstöðu á heimsvísu. Vegurinn þarna er náttúrlega skelfilegur og ég skil vel af hverju ein ferðakona hætti við að fara þarna um og grét bara af því að hún var svo hrædd að keyra veginn. Er ástandið orðið þannig varðandi þennan veg að við þurfum annaðhvort að fara að loka honum eða setja einhverjar takmarkanir um hversu breiðir bílar mega aka hann? Eins og staðan er núna fara bæði rútur og húsbílar þarna um, oft margir bílar í röð. Það er einfaldlega hættulegt. Vegurinn er of mjór og er gerður fyrir allt önnur farartæki og allt annan tíma. Það er kannski bara kominn tími til (Forseti hringir.) að fara í miklu róttækari aðgerðir til þess að sýna fram á að miklu meiri uppbyggingar er þörf til þess að viðhalda þessum vegi.