145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:58]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera að skýringin á því hvers vegna svo hægt hefur gengið að fá nauðsynlegar vegabætur á Vestfjörðum liggi í því að það gæti ákveðins skilningsleysis, skulum við segja, hjá talsmönnum höfuðborgarinnar á stöðunni. Það er kannski ekki síst vegna þess að það er alltaf talað eins og þetta snúist um rétt íbúa á Vestfjörðum til að eiga samskipti við höfuðborgina. En þetta snýst líka, og við sjáum það með vaxandi ferðamannastraumi, um möguleika höfuðborgarinnar til að eiga samskipti við og nýta sér aðgengi að svæðum eins og Vestfjörðum, t.d. með erlenda ferðamenn sem þarf að hafa ofan af fyrir með því að sýna þeim náttúruperlur og fegurð landsins. Þá fer það allt í einu að skipta máli að komast í samband og komast út á svæðin. Kannski verður það ferðaþjónustan sem verður Vestfirðingum til bjargar þegar peningalegir hagsmunir ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda fara að skipta máli og verða kannski til þess að við fáum betri samgöngur. En það er auðvitað mjög sorglegt að þetta skuli vera tilfellið.

Ég ætlaði ekki að ræða þetta við hv. þingmann. Við höfum svolítið talað um faglega forgangsröðun verkefna í samgöngumálum. Nú er það þannig, eins og við höfum séð varðandi jarðgangaframkvæmdir, að þær hafa svolítið viljað detta inn eftir sérhagsmunum kjördæma og svo hafa önnur svæði orðið út undan. Nú eru allmörg ár síðan jarðgangaáætlun (Forseti hringir.) virðist hafa verið tekin úr sambandi og ekki vera við lýði síðan. Telur þingmaðurinn að það hafi verið skref (Forseti hringir.) aftur á bak að alla jafna liggi ekki fyrir þinginu sérstök jarðgangaáætlun þar sem framkvæmdum er raðað í forgangsröð með faglegum hætti?