145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:08]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka umhverfis- og samgöngunefnd fyrir ágæta yfirferð yfir þetta mál eftir 1. umr. og ýmsar gagnlegar breytingartillögur sem hér komu fram við síðari umræðu um tillöguna, frá meiri hlutanum, en einnig frá minni hlutanum. Ég vil leggja á það áherslu hversu mikilvægt það er að menn bregði nú út af vana sínum og samþykki ekki einvörðungu breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar heldur jafnframt breytingartillögur minni hlutans vegna þess að staðan í samgöngumálum er með þeim hætti að þar veitir satt að segja ekki af að taka nokkuð til hendinni eftir það aðgerðaleysi sem einkennt hefur allt þetta kjörtímabil, bæði í nýframkvæmdum og í viðhaldi. Það er þess vegna full þörf á því að ráðast í fleiri verkefni á næstu fjórum árum en áætlunin gerði ráð fyrir og líka fleiri en áætlunin gerir ráð fyrir að samþykktum breytingartillögum meiri hlutans. Það eru verkefni sem þegar hefur verið farið yfir að mikilvægt sé að ráðast í í langtímaáætluninni, þ.e. 12 ára áætluninni. Þess vegna er í rauninni bara um að ræða flýtingu á verkefnum sem allir eru sammála um, þvert á flokka hér í þinginu, að mikilvægt sé að fara í.

Þegar horft er til þess framkvæmdaleysis sem verið hefur núna þau þrjú ár sem þessi ríkisstjórn hefur setið, held ég að hverjum manni megi vera ljóst hversu brýnt það er að taka nokkuð til hendinni í þessari fjögurra ára áætlun þó að hún nái í sjálfu sér ekki nema til tveggja ára, jafn einkennilegt og það er um fjögurra ára áætlun. Helmingur þessarar áætlunar er náttúrlega, eins og fram hefur komið við umræðuna, áætlun um liðna tíð, þ.e. ár sem eru að baki 2015 og 2016, sem nú er að renna sitt skeið á enda, og framkvæmdatímabilinu er í raun lokið. Þess vegna eru hér fyrst og fremst undir næstu tvö ár og það er ekki síst í viðhaldinu sem ástæða er til þess að leggja sérstaka áherslu á að mikilvægt er að taka undir tillögur minni hlutans, því að það hefur auðvitað ekki farið fram hjá neinum sem notfærir sér þjóðvegakerfi landsins að þar hefur viðhaldi lengi verið svo ábótavant að vegakerfið er farið að láta verulega á sjá og er farið að valda tjóni, spilla vegum, en líka skapa vissa hættu í umferðinni sem er mikilvægt að ráða bót á, t.d. þeim holum sem menn sjá í vegakerfinu og miklu sliti á vegum, ekki síst þeim sem þjóna sívaxandi ferðamannastraumi. Það er auðvitað enn ein ástæðan fyrir því að mikilvægt er að horfa til tillagna um flýtingu framkvæmda á þessu sviði að ekki verður fram hjá því horft að hér fer ferðamannastraumurinn vaxandi í raun og veru langt umfram þær væntingar sem nokkur hafði fyrir aðeins örfáum árum síðan. Þar er ekkert lát á.

Við sjáum núna spár um þriðjungsaukningu á næsta ári með samsvarandi aukningu á umferð um ýmsa vegi sem ferðaþjónustan nýtir mjög. Það hefur í för með sér slit og kallar líka á úrbætur á vegum sem eru einfaldlega orðnir svo mikið notaðir að það er ekki lengur forsvaranlegt að hafa þjónustustig á þeim jafn lágt eða aðbúnað jafn lélegan og hann er núna. Það er líka mikilvægt að skapa tækifæri fyrir ferðaþjónustu á öðrum svæðum en þeim sem nú eru mest sótt, þ.e. Gullni þríhyrningurinn og Mýrdalurinn, sem e.t.v. stærstur hluti ferðamannanna sækir á. Þess vegna er ástæða til að fagna því sem þegar var gert ráð fyrir í áætluninni þegar hún kom til þings sem er að opna möguleikann á annarri hringleið inn á Vesturlandið, um Uxahryggi, með því að nýta þar aðkomu að svæðum sem geta nýst vel til þess að mæta þessum sívaxandi ferðamannastraum þar sem er, líkt og á Suðurlandinu, aðgangur að jöklum, aðgangur að hverum, aðgangur að margvíslegum náttúruperlum öðrum.

Þessu skylt er ein af þeim tillögum sem minni hlutinn flytur, og ég vil nota tækifærið og undirstrika hana sérstaklega, en það er vegurinn um Skógarströnd. Með því að ráðast í framkvæmdir þar opnast nýr möguleiki fyrir hringleið á bundnu slitlagi sem gefur umtalsverða möguleika í ferðaþjónustu sem full ástæða er til þess að ráðast í núna þegar við þurfum á hverju ári að leita að nýjum lausnum fyrir hundruð þúsunda fleiri ferðamenn á hverju ári en bara á árinu á undan. Það er um leið fyrirliggjandi að það er ekkert því til fyrirstöðu að afla sérstakra tekna ef talin er nauðsyn á því að auka tekjur ríkissjóðs til þess að mæta flýtingu þessara framkvæmda vegna þess að hægt er að auka tekjur ríkissjóðs af þeim ferðamönnum sem hingað koma. Þar eru ýmsir gjaldtökumöguleikar og í sjálfu sér er ekki annað en sjálfsagt að nýta þá möguleika til þess að fjármagna framkvæmdir sem koma eiga til móts við þennan aukna ferðamannafjölda en eru um leið framfarir sem munu nýtast okkur Íslendingum í ferðum okkar um landið og í samgöngum á milli staða.

Þessum verkefnum er líka skyld sú tillaga minni hlutans sem lýtur að Látrabjargi og kom nokkuð hér til umfjöllunar í andsvörum við ræðu hv. þingmanns sem talaði á undan mér, en gríðarlega mikill fjöldi ferðamanna sækir nú Látrabjarg heim og auðvitað er löngu kominn tími til að bæta aðstöðu frá því sem þar er sem heyrir til liðinni öld í raun og veru og allt annars konar ferðaþjónustu en nú er stunduð þar á svæðinu.

Við fögnum því að nú sér fyrir endann á fjármögnun stórframkvæmdar sem ráðist var í fyrir rétt tæpum 20 árum, það eru Hvalfjarðargöngin. Ég held að það sé rétt munað hjá mér að afborgunum af stofnkostnaði hennar ljúki á næsta ári, 2017, og ætti þá að vera hægt að hverfa frá töku veggjalda þar. Auðvitað er um leið farið að verða nauðsynlegt að huga að því að tvöfalda göngin. Þó að þetta hafi verið farsæl aðferð við að fjármagna þessa tilteknu framkvæmd verður ekki fram hjá því horft að í því hefur verið umtalsverð ósanngirni að þessi leið til og frá höfuðborginni skuli ein hafa sætt séstakri skattlagningu. Þegar við hugum að frekari stórframkvæmdum, m.a. tvöföldun ganganna og því að ljúka við tvöfaldanir á öðrum leiðum til og frá höfuðborgarsvæðinu og í tengslum líka við aðrar stórframkvæmdir, hljótum við að þurfa að horfa til þess að við sýnum meira jafnræði í gjaldtöku til þess að fjármagna vegaframkvæmdirnar. Ég held að við eigum að leitast við að vera nokkuð framarlega þegar kemur að því að nýta nýja tækni til gjaldtöku í vegakerfinu. Það er auðvitað í mjög fyrirsjáanlegri framtíð, á allra næstu árum, nokkuð augljóst að það verður með öllu óþarft að hafa skúra og fólk til að innheimta veggjöld því að unnt verður að fylgjast með allri umferð og skrá hana með rafrænum hætti og innheimta veggjöld. Það er í sjálfu sér ekkert sem kemur í veg fyrir að innheimta veggjöld af öllum vegum, þá bara út frá notkun í stað þess að innheimta þau í gegnum bensíngjaldið eins og nú er.

Ég held að við búum að því, Íslendingar, að eiga mjög öfluga innviði þegar kemur að upplýsingatækni og hagnýtingu möguleika því tengdu. Þó að það hafi verið út af fyrir sig gott að fjármagna Hvalfjarðargöngin með þeim hætti sem gert var þá er mikilvægt að reynt sé að gæta sem mests jafnræðis í því að taka veggjöld og við séum ekki að skattleggja einhverja ákveðna landshluta eða að það séu einhverjir þéttbýlisstaðir sem verði fyrir skattlagningu en aðrir í sambærilegri aðstöðu ekki, kannski bara af því þeir sprengdu gjaldtökuskúrinn þegar reynt var að setja hann upp hjá þeim, eins og gildir nú um þéttbýlisstað ámóta langt frá Reykjavík og Akranes er.

Það segi ég vegna þess að það er auðvitað orðið fremur aðkallandi að reyna að fá niðurstöðu í mestu stórframkvæmdina í vegamálum sem við höfum rætt á undanförnum árum. Raunar eru það ekki bara undanfarin ár heldur áratugir. Ég hygg að ég muni það rétt að á fyrsta kosningafundi mínum í kosningum á síðari hluta síðustu aldar fyrir u.þ.b. aldarfjórðungi síðan, þá í aðdraganda borgarstjórnarkosninga í Reykjavík, hafi verið heitar umræður um fyrirhugaða Sundabraut sem þá var talin vera framkvæmd sem væri rétt handan við hornið og í rauninni væri bara verið að leggja lokahönd á að hanna. En sem kunnugt er hefur því miður ekkert bólað á henni. Engu að síður er það gríðarlega þörf framkvæmd, bæði til þess að bæta aðkomuna að norðan og vestan inn í borgina til þess að flytja umferð af þjóðvegi 1 út úr hverfum sem myndast hafa, þ.e. borgarhverfum í Mosfellsbæ, í eystri byggðum Reykjavíkur og á Kjalarnesi, og taka þann mikla gegnumakstur sem nú er eftir þessari gömlu leið á þjóðvegi 1 um Kollafjörð og þar áfram gegnum Mosfellsbæinn og inn til Reykjavíkur, taka hana á brú út á sundin, til þess að stytta akstursleiðina, og draga úr umferðarslysum, sem því miður hafa verið allt of tíð á þessum vegarkafla með þeim hörmulegu afleiðingum sem slysum geta fylgt. Hin þjóðhagslega arðsemi af þeirri framkvæmd hefur fyrir löngu verið dregin fram í útreikningum á því hversu mikil nýting yrði á leiðinni miðað við fjárfestinguna því að hér fer auðvitað gríðarlega mikil umferð um og felur styttingin í sér verulega arðsemi fyrir þá framkvæmd.

Það hefur hins vegar lengi staðið nokkur styr um fyrst og fremst tvo þætti tengda þessari framkvæmd. Annar þeirra er þverun Elliðavogsins í Reykjavík, þ.e. hvernig koma á Sundabrautinni úr Grafarvogi og áfram inn í restina af Reykjavík, ef svo má segja, því að það er út af fyrir sig ekki umdeilt með hvaða hætti brautin fer yfir Kollafjörð, yfir í Álfsnes og þaðan yfir í Gunnunes og Geldinganes og áfram inn í Grafarvoginn. En það er fyrsti eða síðasti hluti leiðarinnar, eftir því úr hvorri áttinni maður kemur, sem verið hefur umdeildur, hvort fara ætti á fyllingum niður í Elliðavoginn, sem var ódýrasta leiðin og sú sem Vegagerðinni þótti hagfelldust, hvort fara ætti á mikilli brú yfir voginn, vegna þess að þar er erfitt um brúarframkvæmdir utar, því að ekki má spilla siglingaleiðum að aðstöðu Samskipa í Sundahöfn, og síðan hugmyndir sem borgaryfirvöld hafa haft um jarðgöng.

Hinn þátturinn sem valdið hefur því að ekki hefur náðst nægilega góð samstaða um að ráðast í þessa framkvæmd með einum eða öðrum hætti er spurningin um hvernig fjármagna eigi hana og að hve miklu leyti sé hægt að nota veggjöld til þess að kosta framkvæmd af þessu tagi. Reykjavíkurborg hefur eðlilega gert athugasemdir við að vegasamgöngur innan sveitarfélagsins séu skattlagðar. En þá má auðvitað líka huga að því að greitt sé fyrir framkvæmdinni með veggjöldum, en veggjöldin komi þó úr sjóðum hins opinbera einfaldlega með skuggagjöldum.

Fyrir gerð næstu samgönguáætlunar, sem er í rauninni aðeins eftir tvö ár í þinginu, væri mikilvægt að sjá einhverjar línur um þetta í langtímaáætluninni, því að þó að það hafi verið ágæt ákvörðun eftir hrun að verja frekar þeim fjármunum sem gert hafði verið ráð fyrir til verkefnisins til þess að efla almenningssamgöngur á þeim tíma, þá er umferðaraukningin í lengri framtíð um Vesturlandsveginn og fjölgun íbúðahverfa á austursvæðum og norðurhluta höfuðborgarsvæðisins með þeim hætti að það getur ekki gengið til lengdar að vera með mörg þúsund bíla gegnumakstursstraum um svo stór íbúðahverfi sem raun ber vitni.

Þetta var um Sundabraut, virðulegur forseti.

Svo við dveljum nú aðeins við höfuðborgarsvæðið og samgöngumálin hér sérstaklega er óhjákvæmilegt annað en að nefna aðeins flugvallarmálið, sérstaklega vegna þess að ekki gafst tækifæri til þess að ræða það hér við innanríkisráðherra í upphafi vikunnar í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem samgönguráðherra gat ekki verið til andsvara. Þá ræddum við nokkuð um það sem lýtur að flugvellinum hér í Reykjavík og svokallaðri neyðarbraut, sem er nú fremur óheppileg nafngift á þeirri flugbraut sem lokað var fyrir nokkrum mánuðum síðan á Reykjavíkurflugvelli. Það hefur enn sem komið er ekki komið neitt í staðinn fyrir neyðarbrautina. Það dregur út af fyrir sig ágætlega fram að það er ekki réttnefni að kalla þriðju flugbrautina hér á Reykjavíkurflugvelli neyðarbraut, því að menn komast augljóslega af án hennar, a.m.k. um einhvern tíma. Það er hins vegar alveg klárt að það er til þess fallið að auka flugöryggi hér á höfuðborgarsvæðinu að hafa flugbraut á suðvesturhorninu sem getur tekið til lendingar vélar í þeirri flugstefnu sem þessi braut þjónaði. Það hefur lengi legið fyrir að slík braut er til á Keflavíkurflugvelli.

Í aðdraganda atkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar bauð þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, að hægt væri að opna slíka braut í Keflavík og loka brautinni hér ef það mætti verða til þess að völlurinn fengi að vera hér nokkuð lengur. Það er löngu tímabært að efna þau loforð. Það hefur nú komið fram að það kostar ekki nema 280 millj. kr. að malbika brautina suður í Keflavík og búa hana ljósum og öðrum búnaði þannig að hún (Forseti hringir.) geti verið til taks. Söluverðið af landinu sem var undir þriðju brautina hér í Reykjavík (Forseti hringir.) var margfalt hærra en það, þannig að peningarnir eru þegar til og er ekkert að vanbúnaði að gera þetta einfaldlega strax.