145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:36]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð yfir samgöngumálin. Við hv. þingmaður deilum þeirri reynslu að hafa bæði verið borgarfulltrúar í Reykjavík, ég að vísu aðeins fyrr en hann, og ég get upplýst það að Sundabraut var komin til tals á mínum borgarfulltrúaárum strax um 1990, þá töldu menn að það yrðu kannski mest um tólf ár þar til hún yrði komin. Síðan er nú ríflegur aldarfjórðungur.

Hins vegar langar mig að blanda mér aðeins í umræðuna um Sundabrautina. Við deilum því hugðarefni og við deilum ekki um mikilvægi þess að koma þeirri framkvæmd á. Hún er mjög brýn. Hún er ekki bara brýn fyrir höfuðborgarbúana, hún er mjög brýnt samgöngumál fyrir Norðlendinga, Vestlendinga og Vestfirðinga, því að þetta yrði stofnæð hingað inn til höfuðborgarinnar. Þá kemur spurningin um gjaldtökuna og þessi hugmynd að gera þessa samgöngubót að einkaframkvæmd. Mér finnst menn tala full frjálslega um að það sé eitthvert „selvfølgelighed“ að taka þessa framkvæmd í einkaframkvæmd og að henni muni fylgja gjaldtaka vegna þess að verði það þannig þá eru Norðlendingar og Vestlendingar, eða með öðrum orðum Norðvesturkjördæmið ofurselt gjaldtöku á öllum samgönguleiðum til höfuðborgarinnar. Þá fara nú að vakna spurningar um jöfnuð og jafnræði. Við þurfum þá að leita einhverra leiða til þess að jafna gjaldtökunni niður. Eða er þingmaðurinn mér ekki sammála um að það þurfi hreinlega, ef það er verið að tala um að taka gjald af samgöngum við höfuðborgina á annað borð, að leita leiða til þess að jafna því einhvern veginn niður og leggja það á allar stofnbrautir (Forseti hringir.) til og frá höfuðborginni í stað þess að einskorða það við einhverja eina framkvæmd?