145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, við erum algerlega sammála um það og ég tel í raun og veru best ef hægt er almennt að hafa einfaldlega gjaldtöku á vegum eftir því sem menn nota þá, held að tæknin sé að opna okkur leiðir til þess, því að það er auðvitað býsna kindarlegt að þar sem hér suður með sjó fóru menn um árið og sprengdu upp gjaldtökuskýlið þá hafa menn ekki þurft að greiða gjöld á þeirri leið til Reykjavíkur en þeir sem koma hingað frá Akranesi til vinnu sinnar þurfa þess hins vegar því að gjaldskýlið stendur þar enn. Ég held hins vegar að fyrst og fremst sé mikilvægt að það standi sem lofað var, að gjaldtöku ljúki þegar búið er að borga framkvæmdina þannig að fólk geti haft traust á því að svona aðferðir við fjármögnun haldi og það sé búið að borga þetta einhvern tímann og þá sé þetta orðin almenningseign. Ég er alveg sammála því að það er heldur ekki sjálfsagt að fara í einkaframkvæmd og hún má ekki vera hvernig sem er. Ég held að það hafi skipt miklu máli við Hvalfjarðargöngin hvaða aðilar það voru sem stóðu að félaginu og hvernig það var samsett og fjármagnað og að þetta væri ekki einfaldlega einkavædd leið til skattlagningar á fólk um alla framtíð. Ég held að það sem væri ástæða til að skoða um Sundabrautina væri kannski hvort stofnanafjárfestar, aðilar eins og lífeyrissjóðirnir og aðrir slíkir væru tilbúnir til þess að fjármagna þetta til einhvers ákveðins tíma gegn því að fá tryggar greiðslur frá ríkinu sem gæti gert það kleift að ráðast í framkvæmdina fyrr en ella.