145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er full ástæða til þess að skoða lestarsamgöngur og aðra slíka hluti. Ég hef sjálfur skipt mjög um skoðun í þeim efnum á allra síðustu árum vegna þess að mér sýnist tækniþróun vera að breyta öllum forsendum í samgöngum, ekki bara hér heldur um heim allan. Við erum að sjá á allra næstu árum sjálfkeyrandi bíla ryðja sér til rúms, möguleika á því að deila bílum, þ.e. hafa aðgang að einkabíl án þess að eiga hann, geta gengið að einkabíl hvar sem er, opnað hann með kreditkorti eins og menn eru að prófa, t.d. Volvo og fleiri í Pittsburgh núna, við erum komin með sjálfkeyrandi strætisvagna á götur Helsinki, einni af höfuðborgum Norðurlandanna. Það gefur tækifæri til þess að skipuleggja umferð miklu betur, nýta umferðarmannvirki miklu betur og draga verulega úr fjárfestingum bæði í vegakerfi og í bifreiðakosti. (Forseti hringir.) Ég held að þær lausnir muni á næstu árum verða miklu ríkari þáttur en almenningssamgöngurnar.