145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:45]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það gildi um samgöngumálin ekkert síður en önnur mál að besta aðferðin við að ráða þeim til lykta er að færa ákvörðunarvaldið sem allra næst íbúunum. Nú er höfuðborgarsvæðið orðið meira og minna eitt svæði og ekki gott að skipuleggja samgöngur í hverju einu bæjarfélagi þar, en mér finnst til að mynda koma sterklega til greina að gera, eins og við þekkjum víða, að hafa einhvers konar stjórnvald sem nær til höfuðborgarsvæðisins og fer með þessar stofnframkvæmdir, sem ríkið felur einfaldlega það verkefni eða sveitarfélögin tilnefna. Við höfum býsna víða dæmi þar sem höfuðborgarsvæði skiptast í mörg sveitarfélög eins og hér er, en einhvers konar sameiginlegt höfuðborgarráð fer með tvo þætti, annars vegar skipulagsmálin og hins vegar samgöngumálin, vegna þess að þau tvö málefni eru svo samtvinnuð þegar þéttbýlisstaðir standa hver ofan í öðrum og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins hefur leyst úr þessu hvað skipulagsþáttinn varðar á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst alveg koma til greina að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eigi einfaldlega sjálf að fá ákvörðunarvaldið um þetta og sjálf að fá fjármuni til framkvæmda að þessu leyti fremur en að ríkið sé að taka þær ákvarðanir fyrir þá sem hér búa.