145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[15:50]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Samgöngumálin eru stór málaflokkur og þýðingarmikill, ekki flókinn þó, þó að það sé í tísku þessa dagana að tala um að allir hlutir séu flóknir, sérstaklega ef menn eru haldnir ákvarðanafælni. Þetta er ekki flókinn málaflokkur ef menn halda sig við þau meginsjónarmið sem verða auðvitað að liggja til grundvallar allri ákvarðanatöku í samgöngumálum, þá á ég við samfélagslega sýn og sýn á það að samgöngurnar eru lífæðar samfélagsins. Eftir þessum lífæðum streymir sú næring sem samfélögin, byggðarlögin, sveitirnar, hinar dreifðu byggðir og höfuðborgin, þurfa á að halda. Þjónustuflutningar, fólksflutningar, aðföng o.s.frv.

Samgöngumál snúast auðvitað ekki bara um vegi, þau snúast um loftvegina ekki síður, þ.e. fjarskipti, internettengingar, það að fólk geti verið í samskiptum. Eins og hv. þm. Helgi Hjörvar orðaði það svo ágætlega áðan í umræðu okkar um samgöngur og hvað það er sem gerir byggð fýsilega og góða og eitthvert svæði að góðum og æskilegum kosti, það er mannfélagið og mannleg samskipti. Um það snúast samgöngumálin og eru þar af leiðandi kvika hinnar pólitísku umræðu og ættu að vera á hverjum tíma saman með efnahagsmálum og velferðarmálum, en velferðarmál byggja ekki síst á hinu fyrrnefnda.

Þess vegna er mjög mikilvægt að öll ákvarðanataka sé vönduð og fagleg þegar kemur að því að deila almannafé og forgangsraða þeim verkefnum sem ráðast þarf í í samgöngumálum. Það sem mig langar að byrja í máli mínu á að ræða, þessa síðari ræðu mína, er að mér hefur fundist töluverður brestur á því á seinni árum að staðið væri við faglegar efnisátektir í samgöngumálum. Samþætting við aðra stefnumótun og áætlunargerð, allt höfum við þetta í orði kveðnu og þegar við tökum við nýrri samgönguáætlun og lesum hana sjáum við oft að í greinargerð og inngangi er vísað til byggðaáætlunar, sóknaráætlana, sameiningar sveitarfélaga, markmiða um sameiningu stjórnsýslustofnana milli svæða og að leggja saman atvinnu- og búsetusvæði o.s.frv.

Við sjáum þessi markmið í orði kveðnu en svo þegar litið er á framkvæmdaröðina fer stefnumótunin oft fyrir lítið. Eða hvernig skyldi annars standa á því að svæði eins og t.d. Vestfirðir eru olnbogabarn í samgöngumálum, ekki árum saman heldur áratugum og aldarfjórðungum saman? Það er vegna þess að eftir hinni faglegu forgangsröðun, hinni viðurkenndu aðferðafræði, sem allir eru sammála um að skuli lögð til grundvallar, er ekki farið. Það er ástæðan fyrir því að samgöngubót eins og t.d. Dýrafjarðargöngin, sem eru kristaltært dæmi um samgöngubót sem er lífsspursmál fyrir heilan landshluta, lífsspursmál fyrir tvö byggðarlög hvort sínum megin við hin væntanlegu göng, framkvæmd sem átti að vera fyrsta framkvæmdin eftir að jarðgangaáætlun var tekin upp undir lok síðustu aldamóta, þau eru enn ekki orðin að veruleika og eru fyrst að komast í útboð núna, jafn mikilvæg og þau eru.

Ýmsar aðrar framkvæmdir hafa farið fram fyrir í röðina, framkvæmdir sem eru góðar og gildar í sjálfu sér, en hafa bara allt aðra þýðingu og eru í raun á allt öðrum forsendum og með allt öðrum rökum til þeirra stofnað.

Þetta er verulegt áhyggjuefni, virðulegi forseti, og því miður verður að segjast eins og er að sú samgönguáætlun sem hér lítur dagsins ljós og við erum komin tvö ár inn á gildistíma hennar, hún gildir ekki nema í tvö ár héðan í frá, er afskaplega rýr í roðinu og í afskaplega litlu samræmi við þá stefnumótun sem í orði kveðnu hefur verið viðhöfð sem grunnforsenda þeirra framkvæmda sem þar eru lagðar til.

Ef litið er á þá fjármuni sem gert er ráð fyrir að eyða samkvæmt þessari samgönguáætlun nægja þeir ekki einu sinni til þess að fjármagna viðhald vega í raun og veru. Þeir uppfylla ekki þær upphæðir sem Vegagerðin hefur gefið upp að þurfi til þess að viðhalda vegum svo sómasamlegt sé. Vegna þessa hefur meiri hluti umhverfis- og samgöngunefndar gert fjölmargar breytingartillögur á áætluninni, mér telst til að 22 breytingartillögur séu við vegáætlunina, níu breytingartillögur sem lúta að hafnargerð og fimm tillögur sem lúta að flugsamgöngum, tillögur fyrir samtals um 11 milljarða kr. á næstu tveimur árum. Að auki við tillögur meiri hlutans hefur minni hlutinn lagt fram fjölmargar breytingartillögur líka þar sem áhersla er lögð á eitt og annað sem meiri hlutinn að vísu virðist hafa gleymt eða ekki tekið með í reikninginn. Það er ekki ofsagt að Alþingi Íslendinga verður eiginlega að samþykkja allar þessar breytingartillögur, bæði frá meiri hluta og minni hluta, þannig að það er ekki nóg með að samþykkja þurfi þessa samgönguáætlun, það verður að gerast til þess að það sem þar er þó lagt til komist til framkvæmda, en það verður auðvitað að gefa mun meira í en þar er gert ráð fyrir.

Öllum er ljóst að þörfin fyrir samgöngubætur hefur sennilega aldrei verið brýnni en núna á þessum síðustu árum þegar við erum að horfa á geigvænlega aukningu ferðamanna til landsins með tilheyrandi umferðarþunga á öllum vegum landsins og þá ekki síst í nágrenni höfuðborgarinnar. Ástandið er slæmt um land allt en eins og fram kom í fyrri ræðu minni við þessa umræðu eru landshlutarnir engu að síður misvel settir í samgöngumálum og staðan er sýnu verst í Norðvesturkjördæmi eins og sýnt hefur verið fram á, m.a. í þeim Hagvísi sem kom út fyrr í sumar þar sem gerð var sérstök úttekt á þessu og sýndi að staðan í samgöngumálum er verst á Vestfjörðum og Vesturlandi.

Þá erum við komin að því sem ég byrjaði mál mitt á, þ.e. að á samgöngunum veltur jöfnuður landshluta og atvinnulíf og búsetuþróun. Það er því auðvitað mikið réttlætismál að allir landshlutarnir sitji við sama borð í samgöngumálum og að reikningarnir séu jafnaðir þannig að þeir landshlutar sem hafa setið á hakanum árum og áratugum saman fái einhvers konar uppbætur og séu teknir tímabundið í forgang þar til búið er að klára grunnsamgöngukerfið þannig að það sé boðlegt í öllum landshlutum. Það er bara sanngirnismál, sanngjörn krafa. Það er engin frekja. Það er ekkert landsbyggðarvæl. Það er bara heilbrigð, almenn skynsemi sem allir hljóta að sjá að er samfélagslega réttlætanleg.

Skattgreiðendur í hinum vanræktu landshlutum í samgöngumálum hafa borgað það sama til samfélagsins og íbúar í öðrum landshlutum og endurgjöfin á að vera í samræmi við það.

Ég fagna því að minni hluti umhverfis- og samgöngunefndar gerir að tillögu sinni verulegt átak í héraðs- og tengivegum, það eru framkvæmdir (Forseti hringir.) sem nýtast um allt land, en jafnframt leggur minni hlutinn til verulega aukið fjármagn til brýnna verkefna í vanræktum landshlutum, t.d. í Árneshreppi og á sunnanverðum Vestfjörðum. Það er fagnaðarefni og einlæg von mín að þessar tillögur nái allar fram að ganga.