145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir hennar ræðu. Mig langar að staldra við það sem hv. þingmaður talaði svo ágætlega um, um samgöngumálin sem kviku mannlífsins og tengdi það við stöðu mála á Vestfjörðum þar sem hún þekkir gríðarlega vel til. Hún ræddi það hvernig samþættingin við aðra stefnumótun væri ágæt í orði kveðnu en yrði það svo kannski ekki í framkvæmd og að horfa þyrfti til faglegra sjónarmiða.

Mig langar að biðja hv. þingmann um að útskýra fyrir mér hvernig hún sjái það fyrir sér að við getum gert þetta með faglegum hætti. Heimamenn þekkja hvað þarf að setja í forgang í þeirra landshluta og hvernig hægt er að koma þeirra sýn að án þess að við förum í keppni hér á Alþingi í pólitísku eða kjördæmatengdu togi um peninga, hvernig við getum náð utan um það að deila fénu út í landshlutana með sanngjörnum og eðlilegum hætti en auka jafnframt aðkomu heimamanna í því samtali.