145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:09]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði mikið um að búið væri að gera alls konar áætlanir, að komin væri jarðgangaáætlun, og að við hefðum verið að reyna að horfa á stóru myndina í þó nokkur ár. En það virðist vera að þessar áætlanir gangi aldrei upp. Það er eins og eitthvað í íslensku samfélagi geri það að verkum að ef við setjum fram áætlun muni næsta ríkisstjórn setja nýja áætlun, þannig að fólk vinnur í raun stanslaust gegn hvert öðru. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann af hverju svo sé.

Ég er töluvert yngri en hv. þingmaður og hún hefur náttúrlega fylgst meira með pólitíkinni undanfarna áratugi þar sem ég hef ekki getað gert það sjálf, eðli málsins samkvæmt. Af hverju eru alltaf svona mikil átök um samgöngur, um samgönguáætlanir, um hvar eigi að byggja vegi? Af hverju er verið að etja byggðarlögum saman í slag um hver eigi að fá hvað? Af hverju getum við ekki bara sammælst um einhver grunnviðmið um hvað þyki vera ásættanlegur vegur? Þá er ég sérstaklega að hugsa til sunnanverðra Vestfjarða þar sem vegirnir eru hreinlega dauðagildra. Það er nú bara heppni að ekki verða fleiri slys þar en raun ber vitni. Hvernig stendur á því að við getum aldrei horft fram í tímann, gert langtímaáætlanir? Þetta eru hagsmunir okkar allra. Þetta er ekki bara spurning um eitthvert eitt byggðarlag. Þetta er ekki spurning um Reykjavík á móti sveit, þetta er ekki spurning um hægri eða vinstri, þetta er spurning um að byggja þetta samfélag upp og við gerum það ekki nema við höfum almennilegt vegakerfi. Það er grunnurinn að öllu að mínu mati.