145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:12]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið. Ég velti fyrir mér varðandi samgönguáætlun hvort það sé í raun þörf á mun breiðari sátt. Þá er ég að tala um meiri þverpólitíska samstöðu eins og við sáum t.d. þegar kom að útlendingafrumvarpinu, lögum um útlendinga, þar var þverpólitísk nefnd þar sem allir voru jafnir. Ekki var endilega verið að reyna að kúga einhvern minni hluta eða minni hlutinn að reyna að koma einhverju í gegn þrátt fyrir kraft meiri hlutans. Ég held að ég sé sammála hv. þingmanni um að ástæðan fyrir því að við erum með svo skitsófrenískt vegakerfi sé einmitt út af þessari frekju, út af þessum hagsmunatengslum, út af þessu poti sem virðist hafa verið svo einkennandi. Í umhverfis- og samgöngunefnd, þar sem ég sit, kom mér rosalega mikið á óvart þegar Samtök íslenskra sveitarfélaga komu á okkar fund og í ljós kom að af því að þau voru búin að kynnast aðstæðum annars staðar höfðu þau meiri skilning á málinu. Þau voru búin að þurfa að hafa meira miðlægt samráð. Þau voru búin að sjá vegina á sunnanverðum Vestfjörðum og búin að upplifa það að við eigum í raun við sömu vandamál alls staðar. En sá skilningur kom alveg óháð því í hvaða flokkum viðkomandi sveitarstjórnarmenn voru eða hvaða flokka þeir aðhylltust. Þeir sögðu: Já, það eru ákveðnir hlutir sem við þurfum að gera. Við þurfum að laga vegina á sunnanverðum Vestfjörðum. Meira að segja manneskjan frá Austurlandi sagði það, og frá Suðurlandi; já, það er bara augljóst að við þurfum að laga vegina þar.

Þegar við nálgumst þessi grunnkerfi okkar þurfum við að nálgast þau í meiri sátt og ekki pota jafn mikið í einstaka vegi heldur að gera þetta svolítið faglegar og á forsendum þar sem (Forseti hringir.) allir eru jafnir, að gera alla vegi jafna.