145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:17]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég biðst velvirðingar á að hafa ekki verið alveg tiltækur að stökkva í ræðustólinn, ég varð fyrir óvæntri truflun hérna frammi á gangi.

Það er ýmislegt sem ég hefði enn áhuga á að ræða í sambandi við samgönguáætlun og sakna þess reyndar hversu dauf þátttaka ónefndra aðila og sérstaklega stjórnarliða er í umræðum um þessi mikilvægu mál af því að eins og háttar til höfum við ekki haft annað við tímann að gera en að ræða samgöngumálin á meðan leitað er samninga um þinglokin.

Ég vil fyrst segja að ég held að fjárfesting í góðum og greiðum samgöngum sé yfirleitt, og nánast þekki ég ekki dæmi annars, einhver arðsamasta og besta fjárfesting til frambúðar sem völ er á í okkar samfélagi og þótt víðar væri leitað. Það er einfaldlega fátt ef nokkuð sem er jafn pottþétt að skilar margvíslegum árangri, bætir umhverfi og aðstæður fólks, auðveldar menningarsamskipti, skapar nýja möguleika og tækifæri í atvinnulífi, eykur öryggi, sem mjög gjarnan vex með því að samgöngur batni og verði greiðari og öruggari milli afskekktra byggða eða byggða sem liggja fjær miðlægri og mikilvægri þjónustu eins og heilbrigðiskerfinu og þannig mætti eiginlega telja upp án endis. Ávinningurinn er svo margvíslegur. Þess vegna er alltaf vandasamt að meta arðsemi svona framkvæmda og það verður að varast að leggja of þröngan mælikvarða á það því að ýmiss konar óbeinn ávinningur, afleiddur ávinningur og jafnvel óefnislegur sem erfitt er að kvarða er oft svo gríðarlega mikill. Þetta er alla vega reynsla mín af glímu við þessi mál í á fjórða áratug og ég kann orðið þessa sögu nokkuð.

Þetta breytir að vísu ekki hinu að þegar maður fer yfir söguna í samgöngumálum síðustu 30 árin eða svo hefur það nánast án undantekninga verið þannig að stórframkvæmdir og átak í að taka út þröskulda og hindranir í samgöngukerfinu hafa alltaf verið umdeildar, logandi umdeildar. Það vantaði ekki átökin um Borgarfjarðarbrúna á sínum tíma. Eitthvað fékk nú Halldór E. að heyra það. Það var bara kjördæmispot, sögðu menn, hann væri bara að hugsa um Borgarnes. En hvers konar lykilmannvirki er Borgarfjarðarbrúin í dag? Algert lykilmannvirki og á hárréttum stað til að stytta leiðina norður og vestur um frá höfuðborgarsvæðinu.

Vestfjarðagöngin. Ætli ég muni ekki aðeins eftir því. Mér er málið skylt. Ég man nú eftir látunum í aðdraganda þess að farið var í þau, allir spólandi brjálaðir yfir því að ætti að fara að eyða peningum í þessar örfáu hræður vestur á fjörðum. Hvernig halda menn að væri umhorfs í dag á norðanverðum Vestfjörðum ef þau göng hefðu ekki komið? Ógæfan bara að þau skyldu ekki koma tíu, tuttugu árum fyrr.

Hvalfjarðargöngin. Það vantaði ekki lætin út af Hvalfjarðargöngunum. Það hefur ekki verið lamið öllu meira á mér fyrir aðra þátttöku mína í öðrum framkvæmdum nema ef helst skyldu vera Vaðlaheiðargöngin. Það var þannig með Hvalfjarðargöngin að meira en helmingur landsmanna var á móti þeim í skoðanakönnunum. Menn linntu ekki látunum í skrifum um það hvað þetta væri glórulaus framkvæmd. Þau eru að borga sig upp núna á næsta missirinu eða svo og hefðu getað verið búin að því ef menn hefðu ekki lækkað gjaldskrána umtalsvert. Þau eru auðvitað algjört lykilmannvirki, hafa skilað gríðarlegum þjóðhagslegum ávinningi með styttingu tíma og umferðar og minna sliti á bílum og minni orkunotkun sem tilkoma þeirra hefur fært okkur.

Héðinsfjarðargöngin. Það var söngur um þau og svo Vaðlaheiðargöngin núna sem ýmsir hafa fundið mikla íþrótt í að ónotast út í jafnvel þó að umferðin norðan heiða ætli að borga þau sjálf. En ég er algerlega sannfærður um að þegar þau verða komin í gagnið og reynslan af þeim komin innan fárra ára þá munu allir Lilju viljað kveðið hafa. Og það hefur orðið þannig með allar þessar umdeildu framkvæmdir að yfirleitt tiltölulega fljótlega eftir að þær eru komnar í gagnið eru menn mest undrandi á því hvernig við komumst af án þeirra áður en þær komu. Meira að segja jafn augljós framkvæmd og Óseyrarbrúin á sínum tíma sem tengdi saman byggðirnar á Suðurströndinni og hefur sparað síðan stórfé í tilraunir til árangurslausrar hafnargerðar á Stokkseyri og Eyrarbakka var umdeild og ýmsir töldu að hún ætti ekki að koma. Þannig gæti ég áfram haldið.

Ég held að það sé hollt fyrir okkur að rifja þetta upp þegar við erum að tala um samgönguáætlun og fara yfir söguna. Auðvitað er það risavaxið verkefni fyrir fámenna þjóð í litlu landi að gera allt sem hugur hennar stendur til í þessum efnum. En þá þarf að byrja. Þess vegna er dálítið sárgrætilegt (Forseti hringir.) að núverandi ríkisstjórn skuli meira og minna hafa sóað þremur árum í ekki neitt og við verðum þá að taka upp þráðinn af krafti eftir kosningar.