145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé fullgilt að taka þessi mál upp að nýju og ég skal heita hv. þingmanni því, af því að hann ætlar því miður að yfirgefa okkur hér í þessari samkomu og ekki leita endurkjörs, að láta þetta ekki gleymast ef ég verð hér á dögum. Þó að ekkert annað kæmi til núna en gróðurhúsaáhrifin, loftslagsáhrifin og skuldbindingar Íslands í þeim efnum, þá er algerlega kjörið að fara yfir það. Getum við ekki náð talsverðum árangri þar með því að stuðla að því að talsvert af þungaflutningunum sem nú eru á landi fari á sjó? Jú, það getum við að sjálfsögðu.

Í öðru lagi er það slitið á vegunum. Það er alveg óumdeilt að ein skýringin á því hve vegakerfið íslenska er í bágbornu ástandi í dag eru allir þungaflutningarnir sem færðust upp á vegina. Stóru bílalestirnar slíta þúsundfalt til tíþúsundfalt á við lítinn fólksbíl. Það er meira og minna allt flutt í stórum lestum, stórum vörubílum með stærstu gerð af aftanívögnum.

Síðan eru það búsetuáhrifin, (Forseti hringir.) jöfnunin. Menn eru fljótir að gleyma hvernig þetta var á meðan Ríkisskip sigldu. Þá var gjaldskrá sem var með framhaldsfragt (Forseti hringir.) þannig að flutningskostnaðurinn jafnaðist að verulegu leyti út yfir landið. Síðan fengu menn hann á sig að fullu eftir að það kerfi var eyðilagt.