145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:40]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alla vega ljóst að það bíður okkar verkefni og hefur legið fyrir í nokkur ár að endurskoða í grunninn skattlagningu á umferð vegna þess að þar eru að verða breytingar og við viljum stuðla að breytingum þar sem menn hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis og yfir í umhverfisvæna orkugjafa. Á meðan við erum að stuðla að þeim breytingum þá ívilnum við hinum umhverfisvænu orkugjöfum og líka kaupum á sparneytnum bílum. En það gefur augaleið að í fyllingu tímans getum við ekki gert það alltaf og endalaust bara á kostnað þeirra sem eftir verða og nota bensín eða olíu. Þessi stækkandi hluti bílaflotans eða umferðarinnar verður smátt og smátt líka að fara að leggja sitt af mörkum í sköttum til að viðhalda samgöngukerfinu. Það er eðlilegt sjónarmið og eðlileg nálgun að í grunninn er það umferðin sem við ætlum að láta bera kostnaðinn við að leggja til vegakerfið, samgönguæðarnar. Þá þurfum við hvort sem er að fikra okkur í áttina að annars konar skattlagningu að hluta heldur en bensíngjöldum, olíugjöldum, þungaskatti og öðru slíku.

Já, ég tel koma til greina blandaða leið sem fæli í sér samræmda gjaldtöku í tilteknum lykilmannvirkjum eins og er í Hvalfjarðargöngunum, verður í Vaðlaheiðargöngunum og gæti alveg verið í þrjár höfuðáttir út frá höfuðborgarsvæðinu þegar þar eru komnar hraðbrautir með aðskildum akstursstefnum í allar áttir. Þá eru menn líka að borga aðeins aukalega fyrir þau hlunnindi að aka á svoleiðis vegum. það er ekkert ósanngjarnt við það. Menn spara sér með því tíma og fá aukið öryggi o.s.frv. og það er allt í lagi að sú umferð borgi aðeins aukalega.

En í þriðja lagi held ég að í framtíðinni muni náttúrlega koma til skoðunar að nota hina rafrænu tækni með mælingum til þess að leggja að einhverju leyti grunn að umferðarskattlagningunni. Það þarf auðvitað að leysa þar ákveðin persónuverndarmál, við viljum ekki að stóri bróðir sé að fylgjast með því nákvæmlega hvar við erum á hverjum tíma, hvert og eitt okkar á hverjum einasta bíl. Það er auðvitað hægt að gera. Og tæknin býður algerlega upp á það að færa að einhverju leyti skattlagninguna yfir í þess konar notkunargjöld. Þá er bara mælt hvar maður var að keyra, hversu langt eða lengi og það verður að einhverju leyti andlag skattlagningarinnar.