145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[16:58]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Mér finnst mjög spennandi að sjá hvernig þessi tilraun heppnast. En ég ímynda mér að forsendan fyrir því að þetta sé raunhæft og standi undir sér sé sú að ákveðinn fjöldi ferðamanna sé til staðar. Við horfum nú upp á þvílíka fjölgun og svo marga ferðamenn að við erum raunverulega farin að skoða hvort millilandaflug sé raunhæft á aðra velli en Keflavíkurflugvöll og eins að dreifa ferðamönnunum beint frá Keflavík út á land. Ef það gengur vel vona ég að menn horfi til fleiri áfangastaða. Ég upplifi að við séum í rauninni að ofnýta sum svæði og vannýta önnur þegar kemur að ferðamennskunni. Ég var fyrir austan um daginn, í Breiðdal og suðurfjörðunum og hugsaði: Af hverju eru ekki allir hér? Hvað er fólk að gera einhvers staðar? Auðvitað er misjafnt að hverju fólk leitar, en ef fólk er raunverulega að leita að náttúrunni þá er t.d. Austurland bara stórkostlegt og í rauninni allt landið, Vestfirðirnir, Norðurlandið og ég tala nú ekki um suðausturhornið. Það er sama hvar stigið er niður, þannig að mér finnst stundum grátlegt hvað við náum lítið að dreifa ferðamönnum út um land nema rétt yfir blásumarið.

Þetta er mjög spennandi. Ég hlakka til að sjá hvernig þetta reynist. En ég ímynda mér að fyrst Flugfélag Íslands ákveður að fara í þetta núna sé það vegna þess að þeir telji að það séu nógu margir sem vilji notfæra sér þetta. Þeir munu væntanlega líka hafa „kapacitet“ til að auglýsa ferðirnar og það mun gagnast þeim.