145. löggjafarþing — 165. fundur,  6. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[17:05]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum enn tillögu til þingsályktunar um fjögurra ára samgönguáætlun sem er, eins og hefur verið bent á, í raun aðeins rúmlega tveggja ára samgönguáætlun þegar upp er staðið. Í umræðunni hefur þó nokkuð verið talað um mikilvægi samgöngumála almennt og á það bent að samgöngumálin séu auðvitað ákveðin lífæð samfélagsins, því að það er með samgöngum sem við tengjum ólíka staði, ólíkar byggðir saman. Það er til að mynda komið inn á þetta í nefndaráliti minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar og bent á að með auknu samstarfi sveitarfélaga hvað varðar atvinnu og þjónustu, menningu og menntun aukist þörfin fyrir öfluga héraðsvegi. Þar er líka bent á að mikilvægt sé að horfa í meira mæli til jarðganga og þau verði sífellt mikilvægari í allri skipulagningu á byggðastefnu og með tilliti til atvinnuþróunar, svo ekki sé minnst á öryggissjónarmiðin.

Minni hluti nefndarinnar hvetur jafnframt til þess að þegar stórframkvæmdir í samgöngum eru metnar og undirbúnar séu áhrif þeirra á stöðu kynjanna metin. Mér finnst mjög mikilvægt að það sé tekið fram en langar að benda á að það að er fleira sem er mikilvægt að taka með í heildarjöfnuna þegar samgöngumálin eru skoðuð.

Vegna þess að það eru ekki nema örfáir dagar síðan við á Alþingi greiddum samhljóða atkvæði með því að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks langar mig að setja þann samning í samhengi við samgöngumálin og samgönguáætlun. Ég hef ekki getað fundið að það sé neins staðar í þessari samgönguáætlun fjallað nokkurs staðar um samgöngumál í því ljósi. Ég fór í orðaleit í samgönguáætlun fyrir árin 2015–2026 og fann heldur ekkert minnst á samgöngur í tengslum við að fatlað fólk þurfi einnig að komst á milli staða.

Segja má að samgöngumál séu eitt risastórt aðgengismál. Það sést kannski hvað best á því að í 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem fjallað er um aðgengi segir hreinlega að aðildarríkin þurfi að gera viðeigandi ráðstafanir svo fötluðu fólki sé kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum. Þessar ráðstafanir eiga að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að til að mynda hinu efnislega umhverfi en einnig að samgöngum.

Tekið er fram að ráðastafanir sem felast m.a. í því að ryðja úr vegi hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi skuli einnig ná til bygginga vega, samgangna sem og annarrar aðstöðu jafnt innan dyra sem utan. Þetta er gríðarlega mikilvægt að hafa í huga þegar farið er í áætlanagerð, að það sem er verið að skipuleggja, hanna og gera sé hugsað þannig að það nái til allra í samfélaginu og í því tilliti er hugtakið „algild hönnun“ gríðarlega mikilvæg.

Í 2. gr. samningsins um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um skilgreiningar. Þar er algild hönnun skilgreind, en hún er skilgreind svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Algild hönnun merkir hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun.“

Það er þetta sem er svo mikilvægt að hafa í huga þegar kemur að samgöngumálunum og áætlanagerðinni þar vegna þess að þetta er alls staðar í samfélaginu. Þetta snýr að hönnun og frágangi vega til þess að fólk, hvort sem það er hreyfihamlað eða blint, geti komist sem greiðast leiðar sinnar. Slíkt þarf að hafa í huga við jarðgangagerð t.d. Það skiptir máli við alla hönnun þeirra að þar sé öryggisbúnaður og allt þar að lútandi þannig að það henti öllum burt séð frá hreyfigetu fólks. Þetta snýr líka að gerð hafnarmannvirkja þannig að allir geti burt séð frá líkamlegu ásigkomulagi sínu nýtt sér mannvirkin. Það liggur fyrir breytingartillaga frá hv. þm. Vilhjálmi Árnasyni um Vestmannaeyjaferju og hönnun hennar skiptir máli til þess að hún nýtist öllum. Þetta tengist líka inn á almenningssamgöngur þar sem er til að mynda minnst á samstarf við sveitarfélögin um hönnun á léttlestum og hraðvögnum. Það þarf að hugsa til þess að þetta fúnkeri þannig að það gagnist líka fötluðu fólki.

Við þekkjum öll þá umræðu sem hefur verið hér að undanförnu um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Það hefur aldeilis sýnt sig að það er ekki hraðþjónusta heldur hefur það einmitt verið gagnrýnt hversu óskilvirk sú þjónusta hefur verið og hvað það tekur langan tíma fyrir fólk að komast á milli staða. Samfélagsþátttaka fatlaðs fólks byggir á hreyfanleika í samfélaginu líkt og samfélagsþátttaka allra annarra í samfélaginu.

Okkur hefur verið og er allt of tamt að hugsa alltaf um málefni fatlaðs fólks í séraðgreindu boxi. Ég held að við þurfum meðvitað að læra að hugsa um það í allri áætlanagerð ríkisins að áætlanirnar séu þannig gerðar að þær nái í raun til allra og hugsað sé um þarfir allra frá upphafi. Það gildir í þessu líkt og þegar kemur að því að huga að aðgengi í húsum að það er miklu dýrara að breyta mannvirkjum eða áætlunum sem er búið að gera og búið að samþykkja, búið að byggja og skipuleggja, heldur en að hugsa um aðgengi allra í upphafi.

Ég vildi koma því að í umræðunni. Til þess að samgönguáætlun verði það gagn sem við viljum að hún verði og til þess að samningurinn (Forseti hringir.) um réttindi fatlaðs fólks nái einhverju flugi þarf alltaf að hugsa þetta í samhengi.