145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að beina fyrirspurn til forseta. Starf okkar þingmanna er um margt fjölbreytt og skemmtilegt og við förum víða og sinnum hér störfum alla jafna af alúð. En þó hafa sumir ekki, að mínu viti, sinnt þingskyldu sinni svo vikum og mánuðum skiptir. Af þeim sökum hef ég verið að velta fyrir mér hvernig hægt sé að grípa inn í ferlið án þess að það sé eingöngu undir þingmanninum sjálfum komið hverju sinni eða þingflokki, að það hljóti að þurfa að bregðast við með breytingu á þingskapalögum. Það getur ekki talist ásættanlegt að vera ekki í vinnunni, þ.e. að sinna ekki þingstörfum hér eða taka þátt í nefndarvinnu svo vikum og mánuðum skiptir og fá greidd laun af skattfé almennings. Þess vegna velti ég fyrir mér að ef það kæmi upp að tíu þingmenn mundu hegða sér svona hvernig bregðast ætti við. Hvað á að gera?

Er það eitthvað sem við getum fellt okkur við? Mér finnst að forseti og forsætisnefnd þurfi að taka þetta til alvarlegrar skoðunar. Það getur ekki verið eðlilegt að þingmenn séu ekki hér til að taka þátt í afgreiðslu mála. Það er eitt af því sem er starfsskylda okkar, að hafa áhrif á mál í nefndastörfum og ljúka þeim svo í þinginu. En þegar þingmenn hafa ekki séð ástæðu til að vera hér svo vikum og mánuðum skiptir beini ég því til forseta og spyr hvort hann telji að það sé eitthvað sem taka þurfi á í þingsköpum eða með hvaða hætti hægt sé að taka á þessu.


Efnisorð er vísa í ræðuna