145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:40]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Mig langar til að byrja á að taka undir með síðasta ræðumanni, hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur. Sá háttur er t.d. hafður á í Evrópuþinginu að hluti af laununum er dreginn frá ef fólk mætir ekki í atkvæðagreiðslur eða í sín skyldubundnu störf á þingi. Það er að sjálfsögðu alvarlegt mál ef við missum ákveðna þingmenn til annarra starfa án þess að einhver komi í staðinn. Við eigum að vera að vinna saman, ekki satt?

Það sem mig langar hins vegar að fjalla um undir liðnum störf þingsins er óþægilegt atvik sem átti sér stað á Facebook og varðar aðstoðarmann ráðherra. Viðkomandi aðstoðarmaður ráðherra hringdi í gest sem verið hafði á nefndarfundi hv. allsherjar- og menntamálanefndar til að spyrja hvað þar hefði farið fram. Hann hélt því síðan fram að ég hefði haft rangt eftir varðandi niðurstöðu nefndarfundarins. Ekki nóg með það heldur sagði þessi aðstoðarmaður að hann væri í raun að koma boðum til skila frá þessum gesti nefndarinnar.

Nú verð ég að spyrja virðulegan forseta hvort svoleiðis vinnubrögð séu ásættanleg, hvort það séu ekki mjög ámælisverð vinnubrögð að gestir nefnda eigi á hættu að vera yfirheyrðir af framkvæmdarvaldinu eftir á. Þarf ekki að ríkja ákveðinn trúnaður? Er ekki ámælisvert að verið sé að bera boð milli gesta í nefndinni og … (Gripið fram í: … opna fundi?) — Jú, við erum að tala um opna fundi, en þetta er ekki það sama. Þá getur fundurinn bara verið opinn, það er ekkert að því. En að aðstoðarmaður ráðherra (Forseti hringir.) sé að bera boð á milli og segja mér hvað kom fram á fundinum þykir mér ekki alveg vera við hæfi. Ég verð bara að segja það, virðulegi forseti.


Efnisorð er vísa í ræðuna