145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

störf þingsins.

[10:50]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Þessa dagana er verið að ganga frá smíðasamningi á nýjum Herjólfi við norska skipasmíðastöð. Ég vona að það verði skref fram á við fyrir samgöngumál Vestmannaeyja þó að ég hafi nú haft ýmsar athugasemdir við það mál. En í dag, 7. október, eru sex dagar liðnir frá því að síðast var siglt í Landeyjahöfn og það er ekkert útlit fyrir að þangað verði siglt fyrr en í fyrsta lagi á sunnudag eða í byrjun næstu viku. Ölduhæð við höfnina hefur verið 4–8 metrar og nýja skipið sem er verið að smíða á að geta siglt í 3 metra ölduhæð. Þessa viku hefði nýtt skip ekki bætt samgöngur við Vestmannaeyjar nema síður sé. Það er umhugsunarefni fyrir okkur að það skuli vera þannig.

Virðulegi forseti. Það eru aðstæður við höfnina sem eru vandamálið og það eru aðstæður við höfnina sem þarf að rannsaka. Það er mjög mikilvægt að nú þegar og á næstu fjárlögum verði lagt fé í rannsóknir við Landeyjahöfn til að gera hana mögulega opna allt árið. Reyndir sjómenn og skipstjórnarmenn segja að það þurfi garða út á 15–20 metra dýpi svo hægt sé að sigla þangað allt árið. Það er mikilvægt að þegar ný ferja kemur til Vestmannaeyja um mitt árið 2018 þá liggi fyrir rannsóknir og hvað sé hægt að gera til þess að tryggja samgöngur við Landeyjahöfn frá Vestmannaeyjum allt árið. Það er tilgangurinn með nýrri ferju. Hún mun rista grynnra en núverandi Herjólfur og mun auðvitað bæta við einhverjum dögum, en hún mun ekki geta siglt í ölduhæð yfir 3 metrum. Slík ölduhæð er nokkuð oft og núna þegar ósköp venjuleg haustlægð er að ganga yfir þá er dögum saman 4–8 metra ölduhæð. Við þurfum að vinda bráðan bug að því að Vestmannaeyingum verði tryggðar góðar samgöngur allt árið við Landeyjahöfn.


Efnisorð er vísa í ræðuna