145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[11:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Herra forseti. Það er hægt að taka undir hvert orð sem fram kom í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur áðan. Ég þakka sömuleiðis hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur kærlega fyrir samstarfið.

Það er ánægjulegt að þær breytingar sem við lögðum til í minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar komist hér á rekspöl. Það náðist samkomulag við meiri hluta nefndarinnar um að nefndin legði til breytingar til mikils batnaðar í sameiningu. Við höfum fært fyrir því mjög ítarleg og veigamikil rök í ræðum okkar í þinginu að setja þurfi meiri peninga í viðhald og ánægjulegt að það skyldi hafa tekist.

Það sem mig langar að gera að meginefni ræðu minnar í þetta skipti í umræðunni um samgönguáætlun er svolítið sem ég hef ekki náð að koma nægilega vel að í umræðu um samgöngumál og það eru almenningssamgöngur, hvernig þær eru byggðar upp í landinu og hvernig þær birtast fólki sem vill nýta sér almenningssamgöngur, birtast erlendum gestum sem koma hingað og vilja nýta sér almenningssamgöngur.

Til þess að athuga þau mál kannaði ég á alnetinu hvernig maður gæti notað almenningssamgöngur til þess að fara frá Leifsstöð til Reykjavíkur, jafnvel líka frá Leifsstöð til innanlandsflugvallarins í Reykjavík. Það er eiginlega alveg með ólíkindum hvernig við höfum hagað þeim málum hér á landi. Þetta er eitthvað sem ég geri sjálfur í hvert skipti sem ég fer til útlanda, að kanna hvernig sé best að ferðast frá alþjóðaflugvelli til miðborgar, þannig að maður geri það með hagkvæmum hætti, og hvort maður geti ekki örugglega komist með almenningssamgöngum. Það er lífsákvörðun hjá mér að reyna að nýta þær eftir fremsta megni. Það er umhverfisvænt og það er hagkvæmt að gera það og ég lít á það sem skyldu mína að nýta almenningssamgöngur, ekki síst í ljósi þess sem er að gerast í heiminum.

Ætli menn að gera þetta þegar þeir koma til Íslands er það eiginlega ekki vinnandi vegur. Ég var að skoða áður en ég kom til umræðunnar umræður inni á spjallvef Lonely Planet, sem er mjög vinsæll ferðavefur, þar sem menn velta þessu fyrir sér og eru búnir að koma auga á það að leið nr. 55 hjá Strætó fari frá Leifsstöð til Reykjavíkur. Það er að vísu dýrt en það kostar samt ekki jafn mikið og flugrútan frá Keflavík sem öllum meginþunga ferðamannastraumsins, bæði Íslendingum sem eru að ferðast og erlendum gestum, er beint inn í.

Skoði maður þetta í Leifsstöð og kannar þegar maður kemur þar út hvernig sé best að taka strætó til Reykjavíkur er það ekki auðvelt mál. Það sést hvergi strætóskýli þegar maður lendir í Leifsstöð. Það eru ekki nein almennileg merki, kannski eru einhver merki en ég sá ekki nein síðast þegar ég var þar um það hvernig þetta sé best gert. Ef maður ætlar að leita að upplýsingum um þetta á netinu þarf maður fyrir það fyrsta að vita að maður verði að slá inn hjá stræto.is orðinu flugstöð, maður þarf sem sagt að hafa íslenskukunnáttu til þess vegna þess að tilraunir til að kanna þetta á ensku beina manni allar inn í það að fara með annaðhvort Kynnisferðum eða Express, sem eru einu rútufyrirtækin sem aka þessa leið, eða taka leigubíl. Þegar menn skoða síðan verðlagninguna á þessum rútukosti borgar sig fyrir tvo einstaklinga sem ætla að fara í fimm eða sex daga ferð til útlanda frá Reykjavík að fara með bílinn sinn og geyma hann og borga það sem tilheyrir í Keflavík í bílastæðagjöld frekar en að nýta sér almenningssamgöngur. Það er alveg fráleitt að við skulum haga hlutum þannig að það borgi sig fyrir fólk að vera á einkabíl á svona leið. Það er alveg með ólíkindum að á árinu 2016 skuli ekki í opinberu fyrirtæki á borð við Isavia vera búið að ganga þannig frá að menn geti á öruggan hátt, að allir geti á öruggan hátt nýtt sér almenningssamgöngur þannig að þeir þurfi ekki að brjótast 400–500 metra í hríðarbyl í leit að strætóskýli sem er einhvers staðar við langtímabílastæðin í Keflavík, að þeir geti ekki bara farið úr flugstöðvarbyggingunni inn í rútu eða strætó með aðgengi fyrir alla. Það er með ólíkindum. Þetta er svo hamlandi. Þetta er erfitt fyrir fullfrískt fólk en þegar kemur að því að fara þetta fyrir eldri borgara, fyrir fatlaða, fyrir fólk sem á einhvern hátt erfitt með að fara um, ég tala nú ekki um í þeim veðrum sem skapast getur, þá er þetta algerlega óásættanlegt.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er aðeins lítill angi þess máls sem við ræðum hér. En það er alveg furðulegt, virðulegur forseti, að fyrirtæki að borð við Isavia skuli líta svo á að það þurfi að stafa þessa þjónustu ofan í þá, að það þurfi beinlínis að segja þeim að ganga verði þannig frá málum að hægt sé að nota almenningssamgöngur á milli flugstöðvarinnar og Reykjavíkur, svo ekki sé talað um að við erum líka komin svo skammt á veg í skipulagningu á innanlandsflugi okkar að við erum með innanlandsflugvöllinn okkar víðs fjarri millilandafluginu. Það að ekki skuli vera aðgengilegar ferðir á milli flugstöðvarinnar og innanlandsflugvallarins og þær auglýstar segir líka allt sem segja þarf um skipulagsleysið í málaflokknum.

Sem betur fer höfum við á síðustu árum stigið jákvæð skref í þá átt, þ.e. almenningssamgöngurnar eru orðnar aðgengilegri. Það sem er líka ánægjulegt er að almenningur hefur í raun og veru leitt þá þróun. Hann hefur valið þennan kost. Maður sér það á strætókerfinu í höfuðborginni að orðið hefur mikil bragarbót á, mikil breyting á því hversu tilbúið fólk almennt er til þess að nýta sér almenningssamöngur. Sjálfur nota ég oft strætó á ferðum mínum um höfuðborgarsvæðið. Ég nota auðvitað líka reiðhjól og einkabíl en þegar maður fer að tileinka sér að nota reiðhjól og almenningssamgöngur í auknum mæli áttar maður sig á því, sem kannski blasti ekki við manni áður þegar maður var með börn á leikskóla og í grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu, að maður þarf a.m.k. ekki meira en einn bíl. Oft upplifir fólk það þannig sem er með krakka á leikskólum og í grunnskólum og þar sem eru tvær fyrirvinnur á heimili að algerlega nauðsynlegt sé fyrir það að vera með tvo bíla. Við eigum auðvitað að haga uppbyggingu okkar þannig að við gerum fólki kleift að vera aðeins með einn bíl, bæði er það hagkvæmt fyrir fjölskyldurnar, mjög jákvætt og hefur í för með sér ótvíræða kosti fyrir umhverfið og fyrir loftslagsmálin. Þannig leggjum við okkar af mörkum og síðast en ekki síst drögum við úr viðhaldskostnaði á vegakerfinu með því að bjóða öllum almenningi möguleikann á því að nýta sér fjölbreyttari samgöngumáta en bara einkabílinn til þess að komast um.

Þetta eru atriði sem ég vildi hafa nefnt í umræðu um samgöngumál. Ég er núna í ræðu númer tvö í þessari umræðu. Það eru nokkur atriði sem ég get vel hugsað mér að koma að síðar í umræðunni og ég áskil mér rétt til að nýta mér það að geta flutt fleiri fimm mínútna ræður um þetta málefni.