145. löggjafarþing — 166. fundur,  7. okt. 2016.

fjögurra ára samgönguáætlun 2015--2018.

638. mál
[14:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi ræðu minnar þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir góð og falleg orð í garð þingsins og horfa í baksýnisspegilinn yfir feril sinn. Það er alltaf áhugavert. Og þar sem ég hef fylgst með hv. þingmanni í gegnum tíðina og verið með honum í nefnd frá því að ég tók sæti á þingi fyrir sjö árum get ég staðfest að hann er ötull baráttumaður landsbyggðarinnar og samgöngumála. Það verður missir að honum á þingi. Við hin sem ætlum að starfa hér áfram tökum við flagginu af honum og höldum áfram að láta bora í gegnum fjöll sem víðast um landið.

Við ræðum samgönguáætlun og hér liggur fyrir breytingartillaga sem er niðurstaða varðandi þinglokin og breytingartillögur úr umhverfis- og samgöngunefnd varðandi samgönguáætlun, bæði frá meiri hluta og minni hluta. Undir þá breytingartillögu skrifa nefndarmenn úr umhverfis- og samgöngunefnd úr öllum flokkum og taka þar inn tillögur minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar að hluta til. Er ég vissulega mjög ánægð með að sjá það því að það þurfti virkilega að spýta í lófana varðandi samgöngumálin. Þær tillögur sem meiri hlutinn lagði fram til breytinga eru allra góðra gjalda verðar og samþykki ég þær að sjálfsögðu þótt seint komi. Þessi þrjú ár hafa því miður farið til spillis í uppbyggingu innviða og samgöngumála í landinu. En betra er seint en aldrei.

Við í minni hlutanum lögðum til breytingar til að styrkja þær breytingartillögur sem komu frá meiri hlutanum. Nú sammælast menn um að taka hér inn aukið fé í viðhald vega sem ekki veitir af. Það munar um minna. Verið er að tala um að framlög hækki um rúman 1,1 milljarð árið 2017 og 1,3 milljarða árið 2018. Ég veit að margir gleðjast við að heyra það, bæði landsmenn sem búa við slæmt vegakerfi og eins Vegagerðin vegna þess að hún þarf góðan tíma til undirbúnings framkvæmda sinna og þarf að vita úr hverju menn hafa að spila. Þótt þetta sé ekki endanlega frágengið með afgreiðslu fjárlaga treysti ég því og trúi að til valda komi þing sem hefur metnað til þess að gera vel í samgöngumálum af því að þar er mikill uppsafnaður vandi. Öryggis og samgangna vegna milli heilu byggðarlaganna verður að fara að taka til hendinni strax.

Hér er einnig verið að samþykkja tillögu frá okkur í minni hlutanum um að setja 125 millj. kr. í uppbyggingu Skógarstrandarvegar árið 2017, sem ég gleðst mjög yfir, og 125 millj. kr. 2018. Einnig verður lagt fé í að laga Örlygshafnarveg um Hvallátur, leiðina út á Látrabjarg, ekki veitir af. Þar er verið að tala um og búið að leggja til að settar verði 120 millj. kr. í verkið árið 2018.

Á austursvæðinu er verið að tala um að árið 2018 fari 50 millj. kr. í undirbúning og útboð á Axarvegi og samgleðst ég íbúum þess svæðis í þeim efnum því að það er afskekkt svæði sem hefur þörf fyrir góðan uppbyggðan veg inn á miðja Austfirði.

Hérna er líka verið að tala um, það dettur svolítið niður úr skýjunum, 10 millj. kr. í rannsóknir og frumhönnun á jarðgöngum milli Siglufjarðar og Fljóta, 5 millj. kr. á næsta ári og 5 millj. kr. 2018. Ég samgleðst fólki nyrðra og er ánægð með það, en ég vil sjá sambærilega upphæð í rannsóknir á Álftafjarðargöngum sem voru til umræðu í nefndaráliti minni hlutans. Við þingmenn Norðvesturkjördæmis munum leggja mikla áherslu á það og leggja fram tillögu þess efnis og trúi ég ekki öðru en að menn gæti jafnræðis þar og leggi sambærilega upphæð í rannsóknir á Álftafjarðargöngum því að þau eru mjög brýnt verkefni.